136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:10]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sundruð og sundurlaus stjórnarandstaða boðar vantraust á ríkisstjórnina og hyggst bjóða sjálfa sig fram sem valkost í kosningum fyrir áramót eða jafnvel fyrir jól. Ég vil fyrir mína parta segja að mikið ábyrgðarleysi væri að lama stjórnsýsluna og stjórnmálin á þessari ögurstund í íslensku þjóðfélagi. Ekki nóg með að framboðsmál mundu taka allnokkurn tíma fram að kosningum heldur yrði stjórnsýslan lömuð meðan á stjórnarmyndun stæði og í nokkurn tíma eftir að ný ríkisstjórn tæki við. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona vinnubrögð, virðulegi forseti. Upp á hvað býður svo stjórnarandstaðan? Er það fumleysi og vönduð vinnubrögð samþykktrar forustu Framsóknarflokksins, flokks innbyrðis deilna sem er á hverfanda hveli í íslenskum stjórnmálum? Eða er það framtíðarsýn Vinstri grænna sem felst í því að vera á móti nánast öllu og mest á móti útlöndum og tekur aldrei ábyrgð og tekur aldrei afstöðu, enda er forustumaður þeirra Íslandsmeistari í stjórnarandstöðu? Eða er það umburðarlyndið og manngæskan í margklofnum Frjálslynda flokknum? Ég spyr. Værum við kannski betur stödd með hv. þm. Jón Magnússon sem félagsmálaráðherra í stað hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur? (Gripið fram í: Örugglega.) Væri íslenskt þjóðfélag í stakasta lagi ef okkur hefði hugkvæmst að setja þessa ágætu menn í ríkisstjórn? Væri ekki allt í himnalagi ef einkavinirnir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og seðlabankastjóri gætu stjórnað landinu saman? Það yrði heldur en ekki málefnaleg samstaða á milli Stjórnarráðsins og Svörtulofta. Seðlabankastjóri gæti þannig gætt að efnahagsmálum og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon (Gripið fram í.) haldið áfram að vanda um fyrir þjóðinni í anda hótelstjórans Georgs Bjarnfreðarsonar í Dagvaktinni með hugmyndum sínum um netlöggur og öðrum slíkum sniðuglegheitum, sem er það eina sem hv. þingmaður hefur lagt fram. Þá kæmi ekki til tals að skipta út krónunni, enginn mundi tala um Evrópusambandið, hvað þá að taka lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hver er framtíðarsýn Vinstri grænna? Hvað vilja Vinstri grænir gera við Seðlabankann? Væri hægt að fá svör við því, hæstv. forseti? Upp á hvað er boðið? Lýðskrum og ekkert annað en lýðskrum. Telur stjórnarandstaðan að það sé henni virkilega til framdráttar að eyða tíma þingsins í svona uppákomur?

Hæstv. forseti. Framsóknarmenn sendu á dögunum bréf til Valgerðar Sverrisdóttur, sem varð formaður flokksins með hálftímafyrirvara, þar sem hún er hvött til að hugleiða hvaða áhrif félagslegur og pólitískur framgangur hennar hefur haft fyrir þjóðina og Framsóknarflokkinn. Hún er þar af sínum eigin flokksmönnum kölluð til ábyrgðar fyrir einkavæðingu ríkisbankanna og regluverkið sem fyrrverandi ráðherra bankamála. Ætlar hún kannski að bjóða sig fram til að sjá um slíkt aftur? Miðla af reynslu sinni þjóðinni til heilla eða þess þó heldur? Nei, herra forseti. Það sér hver maður að ekki stendur steinn yfir steini í Framsóknarflokknum og þar sópa heilu kjördæmin út öllum þingmönnum sínum í einni og sömu vikunni, enda hefur flokkurinn álíka mikið fylgi samkvæmt skoðanakönnun og Frjálslyndi flokkurinn eða rétt rúm 5%. (Gripið fram í.) Er margklofinn Framsóknarflokkur hæfur til forustu? Nei og aftur nei. Ég er sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem segir að fólkið hafi talað í skoðanakönnunum, alla vega gagnvart Framsóknarflokknum.

Frjálslyndi flokkurinn virðist vera og er friðsamur við hliðina á Framsóknarflokknum en þar logar þó stafnanna á milli í hatrömmum bræðravígum og má segja að flokkurinn hafi orðið fyrir fjandsamlegri yfirtöku. Er Frjálslyndi flokkurinn það sem þjóðin þarf á að halda núna? Nei og aftur nei. (Gripið fram í: Jú.)

Herra forseti. Það sem þjóðin þarfnast núna er ríkisstjórn sem sýnir staðfestu, úthald og samheldni og það mun núverandi hæstv. ríkisstjórn gera. Það er eðlilegt, virðulegi forseti, að þegar á móti blási sé fólki í landinu órótt en það mun ekki bæta ástandið að boða til kosninga. Núverandi stjórnarflokkar munu einbeita sér að því að koma okkur út úr erfiðleikunum og þangað til kemur ekki annað til greina í mínum huga en standa í báða fætur og klára vinnu okkar við að leiða land og þjóð út úr kreppunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Þetta var glæsileg ræða.) (Gripið fram í: Flott ræða.)