136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:15]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki eru nema u.þ.b. sjö vikur síðan þingið afgreiddi neyðarlög og hv. Alþingi afgreiðir ekki neyðarlög nema vegna þess að það er neyðarástand og því ástandi hefur ekki linnt. Það er búið að vera neyðarástand og ríkisstjórnin hefur verið á fullu við að vinna úr því ástandi. Það ástand hefur endurspeglast í öllu samfélaginu. Það endurspeglast á mótmælafundum og endurspeglast á nánast öllum heimilum í landinu. Þetta er sú staða sem upp er komin í kjölfar þess sem hér hefur átt sér stað. Hér varð algjört kerfishrun og úr þeirri stöðu er verið að reyna að vinna.

Ég leyfi mér að fullyrða hér, virðulegi forseti, að sagnfræðingar framtíðarinnar munu örugglega komast að því að ríkisstjórnin hafi gert einhver mistök á þessari vegferð, alveg klárlega, en menn munu einnig komast að því að ríkisstjórnin hafi verið á réttri leið og þannig er það bara í lífinu. Ríkisstjórnin er að gera eins vel og hún getur og mun halda áfram á þeirri vegferð en einmitt á þeirri vegferð, í miðri þeirri vinnu er lögð fram vantrauststillaga á þinginu. Það er mjög athyglisvert og að minni hyggju ekki til þess fallið að kalla fram nauðsynlega samstöðu til að vinna okkur úr þeirri stöðu sem við nú erum í.

Ég hef hlýtt á umræðuna í allan dag og ég hef leitað eftir því hvað það er í raun og veru, hvaða hugmyndir eða tillögur hafi komið fram m.a. hjá stjórnarandstöðunni. Ég hef ekki, virðulegi forseti, orðið var við að þar mætti greina nokkuð sem kalla mætti plan B, sem stundum hefur verið kallað eftir í umræðum á þinginu, þ.e. einhverja aðra leið. Hins vegar hefur verið fundið að öllu sem gert hefur verið en ekki bent á neitt annað, ekki neitt sem hugsanlega hefði mátt ráðast í sem betur mætti fara. Hér hefur verið gagnrýnt mjög harðlega að tekið hafi verið stórt lán til að koma gjaldeyrismarkaðnum af stað á ný en enginn hefur bent á aðra leið til að koma sama markaði af stað, sem er forsenda þess að fá verð á krónuna, forsenda þess að okkur takist að vinna á verðbólgunni eins og nú er, forsenda þess að ná niður skuldum heimilanna. Hér hefur ekkert verið lagt til og maður hlýtur að spyrja eftir alla þessa umræðu um hvað ætti að kjósa. Hvaða hugmyndir hefur stjórnarandstaðan lagt fram hér sem kjósa ætti um?

Það hefur ekkert komið fram. Umræðan hefur fyrst og fremst verið um fortíðina, umræðan hefur verið um það sem liðið er. Hér hafa engin svör komið fram um hvert skuli stefna, engin svör um það hvort stefna eigi að nánari Evrópusambandsaðild eða hvert eigi að fara. Fram undan eru landsfundir eða stórir fundir hjá tveimur flokkum sem án efa munu að einhverju leyti greiða úr þessari stöðu. (Gripið fram í: Viltu ekki kosningar?)

Virðulegi forseti. Að minni hyggju hefur ekkert komið fram hér sem réttlætir þessa tillögu. Það hefur reyndar komið fram, og ég hef tekið eftir því að hv. þingmenn hafa ítrekað vísað til þess, að skoðanakannanir bendi til að ríkisstjórnin njóti ekki trausts. Síðasta skoðanakönnun sem ég hjó eftir sýndi u.þ.b. 31% fylgi, sem er ekki mikið, en í sömu skoðanakönnun kom einnig fram að tveir flokkar af þremur sem leggja þessa tillögu fram njóta samanlagt u.þ.b. 9–10% fylgis. Ef við eigum að draga ályktun af þessum skoðanakönnunum eiga þá forustumenn þessara flokka að segja af sér eða (Gripið fram í.) hvernig ætla menn að leggja út af þessu? (Gripið fram í: Nýja flokka.) Hér er kallað fram í, nýja flokka. Ef til að mynda þessi tillaga væri samþykkt gæfist enginn tími til að stofna nýja flokka (Gripið fram í.) einfaldlega vegna þess að hér er gert ráð fyrir að kosið verði núna, væntanlega á aðventunni eða hvað? (Gripið fram í.) Með góðum vilja má hugsanlega túlka tillöguna þannig að það eigi ekki að kjósa fyrr en í febrúar og ég er nokkuð viss um að það er ekki langur tími fyrir nýja aðila til að skipuleggja framboð í öllum kjördæmum og það væri ekki lýðræðislegt gagnvart nýjum aðilum ef ætlunin er að samþykkja þessa tillögu.

Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir kerfishruni, við stöndum frammi fyrir því að byggja upp nýtt Ísland og ég held að leiðin til þess sé ekki sú að fara í kosningar á þessari stundu.