136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:29]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja út af orðum hæstv. forsætisráðherra að auðvitað reyna framsóknarmenn að láta gott af sér leiða ef hægt er, vegna þess að hann hafði sérstaklega orð á því að Framsóknarflokkurinn hefði stutt eitthvað af því sem kom frá ríkisstjórninni. En það hefur verið annar bragur á þessari umræðu en við eigum að venjast hér og einhverra hluta vegna hafa samfylkingarmenn haft sig hæga gagnvart sjálfstæðismönnum. Það var greinilega búið að æfa liðið dálítið, æfa kórinn. En það er þá kannski ekki til einskis barist ef það verður meiri friður á stjórnarheimilinu að lokinni þessari umræðu.

Hæstv. umhverfisráðherra sagði að hún ætti ekki samleið með Vinstri grænum í pólitík. Ég gat ekki skilið hana betur og þá var ég eiginlega dálítið hissa því mér finnst hún einmitt eiga mikla samleið með Vinstri grænum við að stoppa álversframkvæmdir og annað slíkt. (Gripið fram í.) En hún sagði líka að í tíð Framsóknar hefðu verið sett ný lög um Fjármálaeftirlitið og það er hárrétt. Það eru lög sem voru sett í minni tíð. Það er þannig að Fjármálaeftirlitið er sjálfstæðari stofnun eftir að þau lög voru sett en það var eitt af því sem hæstv. núverandi félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir gat aldrei skilið því hún kom stanslaust upp í þennan ræðustól og óskaði eftir því að ég beindi hinu og þessu til Fjármálaeftirlitsins sem var bara náttúrlega púra pólitík. En þannig er það ekki. Fjármálaeftirlitið starfar sjálfstætt án þess að stjórnmálin skipti sér af því. Ég vona að það sé þannig enn þá. Ég segi bara að ég vona það.

Síðan kom hæstv. utanríkisráðherra og sagði að íslensku bankarnir hefðu staðist álagspróf í nóvember 2007, þ.e. eftir kosningar, eftir að Samfylkingin tekur við. En samt hélt hún því fram að í minni tíð, í tíð Framsóknarflokksins í ríkisstjórn hefði verið hægt að bregðast við lánsfjárkreppunni sem alls ekki var hafin.

Seðlabankastjóri hélt enga fundi með ráðherrum Framsóknarflokksins til að vara þá við hugsanlegu hruni bankanna, svo mikið er víst. En það þýðir ekki fyrir samfylkingarfólk að reyna að koma ábyrgðinni yfir á aðra. Það kemur mér reyndar ekki alveg á óvart að það sé reynt miðað við það innræti sem gjarnan hefur fylgt krötum í íslenskri pólitík (Gripið fram í.) og þegar hæstv. samgönguráðherra talaði hér áðan, (Gripið fram í.) þá kom hann fram sem hv. þm. Kristján Möller. Ég kannast vel við hann frá síðasta kjörtímabili. Ég ætla bara að segja það.

Svör við því hvar ábyrgðin liggur munu koma í framhaldi af þeirri vinnu sem nú er að fara í gang, þeirri rannsóknarvinnu og það verður skilað skýrslu eftir um það bil ár og þar getum við lesið allt um það og þurfum ekki að hafa fleiri orð um það hér.

Svo er það hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson. Hann fór hér mikinn og var dálítið óheppinn að hann skyldi fara að tala um það þegar hann stóð á pöllunum og hrópaði á þingheim vegna breytinga á lögum um LÍN því það gerðist nefnilega einmitt á hans vakt þegar hann var umhverfisráðherra að það var hrópað og púað á hann af pöllunum þegar Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru að breyta lögunum um LÍN námsmönnum mjög í óhag.

Ég lýsi ánægju með það að hæstv. utanríkisráðherra nefndi það að fyrirtækin í landinu væru í kröppum dansi og það gefur mér þá von og trú að það eigi eitthvað að taka á málefnum fyrirtækjanna og kannski líka sveitarfélaganna sem eru í miklum erfiðleikum að geta rekið sig og eins og allir vita þá hafa þau mjög mikilvægu hlutverki að gegna í sambandi við alla nærþjónustu.

Að síðustu, hæstv. forseti, vil ég segja að pólitíkin snýst mikið um samkeppnishæfni og þannig var það alla vega þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn að við lögðum mikla áherslu á samkeppnishæfni. Nú stöndum við frammi fyrir því að halda unga glæsilega fólkinu okkar í landinu. Um það mun pólitíkin snúast á (Forseti hringir.) næstu vikum að leggja sig fram um að það megi takast, þ.e. þeirra valdhafa sem munu taka við eftir að þessari atkvæðagreiðslu lýkur.