136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

aðgerðir í atvinnumálum.

[14:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt að hlusta á hæstv. iðnaðarráðherra. Það er alveg greinilegt að hann hefur lært af reynslu sinni af því að hafa setið síðast í ríkisstjórn þar sem ríkti almennt atvinnuleysi og glundroði og framsóknarmenn þurftu að koma með loforð um 12 þúsund ný störf og þar á meðal í áliðnaði (Gripið fram í.) til að rétta samfélagið við. (Gripið fram í.) Við stóðum við það og gott betur.

Það er mjög ánægjulegt að heyra þetta. Það sýnir það að við vorum að skapa raunveruleg störf. Við vorum ekki að stunda neina „akróbatík“ eins og hann minntist á á hlutabréfamarkaði heldur fórum við í raunverulega atvinnuuppbyggingu. Mér finnst mjög mikilvægt að það verði eitthvað sem ríkisstjórnin fari í strax vegna þess að eins og væntanlegur seðlabankastjóri hæstv. iðnaðarráðherra, Þorvaldur Gylfason, hefur bent á er versta hugsanlega afleiðingin af kreppunni hér sú sama og varð í Færeyjum, unga fólkið sem fór hefur ekki komið aftur. Unga fólkið hér er nú að velta fyrir sér hvort það eigi að fara. Við getum því ekki verið að horfa á einhverja olíudrauma 15–20 ár fram í tímann.