136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:02]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal ekki gera lítið úr 10 milljörðum kr. Það er alveg klárt að þeir hafa verið teknir að láni erlendis og hljóta að vera hluti af því sem íslenskri þjóð er nú ætlað að borga á næstu árum. Hluti af þeim 1.400 milljörðum kr. sem verða teknar að láni ýmist hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða hjá ríkjum sem hafa fallist á að lána þessari skuldsettu þjóð. Tíu milljarðar eru vissulega mjög há fjárhæð. Ég minni á að við höfum ekki fengið upplýsingar um það enn þá hversu há Icesave-skuldin í rauninni er í Bretlandi. Í hv. viðskiptanefnd var talað um 660 milljarða kr. sem endanlega útreiknaða tölu. Hér í þingsal hafa ráðherrar talað um 620 milljarða kr. Þar munar 40 milljörðum. Við erum að tala um 10 milljarða. Í fjölmiðlum hafa menn gjarnan talað um að þetta séu svona 600 milljarðar kr. og við erum að tala um 10 milljarða kr.

Allt ber þetta að skoðast í samhengi, hæstv. ráðherra, sem hins vegar svaraði ekki spurningu minni um það hvernig hæstv. ráðherra ætlar að tryggja að þessir 10 milljarðar skili sér til baka inn í landið. Ég er ansi hrædd um að þeir sem selja bíl í útlöndum geti jú af því við erum í EES sett andvirðið inn á reikninga bæði í innlendum og erlendum bönkum í hvaða landi EES þar sem þeir geta selt viðkomandi bíl.