136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir misnotkun á því að fella niður skattskuldir upp á 1,5–2 milljarða kr. sem gætu orðið til þess að 10 milljarðar íslenskra króna í gjaldeyri skiluðu sér ekki til landsins heldur sætu kyrrir þar sem bílarnir eru seldir. Það er auðvitað mikilvægt og þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra hvernig hann ætlaði að koma í veg fyrir það. Hvernig hann ætlaði að tryggja að þessir peningar kæmust til landsins. Það er vísað í einhverja reglugerð. Ég vil bara benda á að það er algjört frelsi í flutningi fjármagns á milli landa. Ég spyr aftur og hlýt að krefjast svara við því, í nefnd ef ekki vill betur: Hvernig sér ráðherrann að hægt verði að tryggja að þessir peningar komist hingað heim? Og ég endurtek að ég tel að þetta sé algerlega röng forgangsröðun gagnvart heimilunum í landinu.