136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:06]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að fagna þessu frumvarpi og reyndar að leyfa mér að koma strax inn á orð hv. þingmanns um að hér sé um ranga forgangsröðun að ræða gagnvart heimilunum í landinu. Ýmsir hafa haft samband við mig, bæði símleiðis og í gegnum tölvupósta, eftir að ég fór að fjalla um þetta mál á sínum tíma og er orðið talsvert langt síðan. Ýmsir fleiri hafa líka fjallað um þetta, að það geti skipt höfuðmáli fyrir margar fjölskyldur að það komist hreyfing á bílamarkaðinn. Bílamarkaðurinn er frosinn og margar fjölskyldur mundu mjög gjarnan vilja losna við skuldbindingar vegna bifreiðakaupa. Það þarf t.d. ekki að vera, eins og fram hefur komið í úttekt FÍB, nema tiltölulega venjulegur bíll, hefðbundinn fjölskyldubíll. Hann kostar með talsverðri skuldsetningu um 100–150 þús. í rekstri á mánuði. Það þýðir að menn þurfa að hafa yfir 200 þús. kr. í laun á mánuði til að geta borgað það að teknu tilliti til þess þegar menn hafa borgað skatta. Það er bara hátt í kennaralaun, takk fyrir. (Gripið fram í.) Þetta eru alveg ótrúlegar upphæðir. Hafi verið tekið erlent lán þegar gengisvísitalan var í kringum 120 og skuldbindingin vegna lánsins verið í kringum 50 þús. þá er hún komin yfir 100 þús. núna. Svo koma tryggingar og allt það ofan á.

Margar fjölskyldur reka tvo bíla, kannski ekki báða skuldsetta, ég er ekki að segja það, en margir eru með báða skuldsetta. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og óvænt útlegg ofan á það kannski að laun lækki. Ef við komum hreyfingu á þennan markað og ég undirstrika ef, þá eru þær forsendur sem hér er miðað við að fólki takist að selja bílana úr landi. En eins og maður hefur oft komið inn á í þessum ræðustól erum við því miður ekki eina þjóðin sem er í kreppu. Kreppan er alls staðar í kringum okkur og það er ekkert víst að það sé markaður fyrir þetta þó að hann hafi verið það fyrir einum eða tveimur mánuðum. Það er miður því að mikið af eignum hefur brunnið á Íslandi undanfarið og erlendis í okkar eigu og það er óþarfi að við hendum bílunum á bálið líka því að það er nú svo að bílaeignin er miklu meiri en þjóðin þarf á að halda. Það eru fleiri bílar en ökuskírteini í landinu og auðvitað má segja að fólk var á neyslufylliríi. En fólk sem keypti sér bíl, hefðbundinn fjölskyldubíl, og er komið með þessa skuldsetningu á bakið er ekki fólk á neyslufylliríi. Þetta er bara venjulegt fólk, það er staðreynd málsins.

Ef það truflar þingmenn eitthvað sérstaklega að þetta létti hugsanlega á hjá einstökum fyrirtækjum þá verð ég að segja að það er ekki áhyggjuefni í mínum huga. Í þessum geira starfa mjög margir, margar fjölskyldur byggja afkomu sína á því að höndla með bíla, þannig að það er gott ef hægt er að koma þessum viðskiptum af stað á ný. Aðalatriðið er hins vegar að í þessu eru fólgin mikil verðmæti. Það er gjaldeyrisskortur í landinu. Það er vonandi hægt að hreinsa þennan bílaflota, ég undirstrika vonandi, að einhverju leyti úr landi. Ef okkur tekst það blessunarlega þýðir það að við komum hreyfingu á markaðinn og getum hugsanlega létt undir með fjölskyldum svo skiptir jafnvel milljónum á ári.

Það ætti að kæta vinstri græna ef bílunum fækkar. Því hvað hefur gerst núna í þessari blessuðu kreppu? Jú, það þurfti kreppu til að það fjölgaði í strætó á ný. Nú er loksins orðin farþegaaukning hjá strætó. Fyrir því hafa vinstri grænir barist. Er þá ekki ágætt að hreinsa þennan — (ÁI: … kreppu?) var þetta ekki útúrsnúningur, hv. þingmaður? (Gripið fram í: Álfheiður Ingadóttir snýr ekki út úr.) Nei, ég hef orðið var við það undanfarna daga en þetta er náttúrlega dæmigert fyrir málflutninginn. Þar af leiðandi er þetta líka ákveðið innlegg í umhverfisnálgun vinstri grænna og þess vegna skil ég ekkert í þeim að fagna ekki þessari umræðu. Hugsanlega vinnst þá tvennt. Hugsanlega, ef vel tekst til, getur þetta létt undir hjá fjölskyldunum og við getum minnkað útblásturinn á Íslandi og fólk farið að taka strætó í meiri mæli. Það eru miklir plúsar við það.

Í framhaldinu geta menn hugsanlega farið að setja sér ný viðmið varðandi innflutning. Sá sem hér stendur skal vera algjörlega tilbúinn til að setjast niður með hverjum sem er og horfa til þess að þeir bílar sem koma síðan inn í landið í staðinn fyrir þá sem fara út núna verði umhverfisvænni en þeir voru. Það hefur í sjálfu sér verið með algjörum ólíkindum að við höfum ekki gert meiri kröfur varðandi umhverfið þegar kemur að bílainnflutningi. Það er ágætt að endurskoða það. Og ég held líka að við ættum að skoða það sérstaklega hvort við ættum að hvetja og ýta undir innflutning á rafmagnsbílum.

Ég horfði á mynd um daginn sem heitir Hver drap rafmagnsbílinn? Það var alveg ótrúlegt að horfa á þá mynd þar sem í rauninni var farið að framleiða rafmagnsbíla í talsverðum mæli meira að segja í Bandaríkjunum í kringum 1990 og allt í einu voru þessir bílar innkallaðir. Það var alveg ótrúlegt, þetta var komið vel á veg og svo komu menn með alls kyns útúrsnúninga um að betra væri að fara aðrar umhverfisvænar leiðir. Þetta voru þessi fínu rafmagnsbílar. Allt í einu kom tilskipun frá GM Chrysler um að skila öllum þessum bílum, takk fyrir, og þeir bara sóttir. Ég er alveg undrandi á því að þessi þróun skuli ekki hafa farið af stað á ný í meira mæli. Engu að síður er farið að framleiða núna mjög vandaða og góða rafmagnsbíla, hefðbundna bíla sem eru með mjög mikla akstursgetu og hægt að aka þeim langar vegalengdir. Og ég held að við Íslendingar ættum jafnvel að horfa til þess sem mér skilst að Ísraelsmenn hafi gert, að efla hér infrastrúktúr eða innviði fyrir rafmagnsbíla þannig að fólk geti farið um land allt á rafmagnsbílum. Það er kannski næsta skref og kannski partur í endurreisninni, eitthvað sem við þurfum að horfa til. En það væri alla vega mikill gjaldeyrissparnaður í því að geta verið með endurnýjanlega orku á bílaflotanum og eins væri það náttúrlega mjög umhverfisvænt. Hugsanlega gætum við þá líka verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar í þessum efnum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni.