136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

niðurfelling laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs.

169. mál
[15:40]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er með nokkrum trega sem iðnaðarráðherra kemur hingað og flytur þetta frumvarp vegna þess að hér er í reynd settur punktur aftan við svolítinn kafla og ekki ómerkan í atvinnusögu Íslendinga. Ég mæli sem sagt fyrir frumvarpi um niðurfellingu laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, nr. 80/1966, og um ráðstöfun eigna hins merka sjóðs, Kísilgúrsjóðs.

Í þessu frumvarpi er sem sagt lagt til að sjóðnum verði slitið og starfsemi hans lögð niður. Sömuleiðis er lagt til að í sömu atrennu samþykki þingið að leggja niður lögin um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, sem ég vísaði til áðan. Þetta er lagt til í ljósi þess að kísilgúrverksmiðjan hætti starfsemi sinni árið 2004 og tekjur Kísilgúrsjóðs af námagjaldinu eru engar. Starfsemi sjóðsins er þess vegna háð eigin tekjum og framlögum á fjárlögum.

Í þessu frumvarpi er sömuleiðis lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að ráðstafa eignum sjóðsins með samningi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. Það er gert ráð fyrir því að sá samningur hafi það að markmiði að efla nýsköpun og atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem hafa átt verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Kísilgúrverksmiðjunnar.

Þeir sem þekkja þennan kafla í atvinnusögunni muna vafalaust eftir því að Kísilgúrverksmiðjan hf. við Mývatn var stofnuð árið 1966 með sérstökum samningi íslenska ríkisins og bandaríska fyrirtækisins John-Manville Corporation. Þessi verksmiðja starfaði samkvæmt þeim lögum sem ég nefndi hér áðan, nr. 80/1966, en starfsemi verksmiðjunnar var hins vegar hætt í nóvember 2004. Með lögum nr. 17/1995, um breytingu á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, var jafnframt stofnaður sérstakur sjóður, Kísilgúrsjóður, og hans hlutverk átti að vera að efla atvinnulíf í þessum sveitarfélögum sem telja mætti að ættu verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi þessarar merku verksmiðju. Ráðstöfunarfé sjóðsins samkvæmt þeim lögum átti að samanstanda af fimmtungi af námagjaldi verksmiðjunnar til ársins 2001 en frá 2002 til og með ársins 2010 átti það að aukast í 68% af námagjaldinu ásamt allt að 20% af tekjum ríkisins sem eiganda framleiðslufélagsins samkvæmt heimildum í fjárlögum.

Stjórn Kísilgúrsjóðsins hefur komið að mörgum merkum málefnum á sinni tíð. Það var yfirleitt úthlutað úr sjóðnum tvisvar á ári, vor og haust, og þetta 2,5–3 milljónum í hvert skipti. Að mestum hluta voru þessar úthlutanir í formi styrkja þó að líka hafi að vísu verið nokkuð um það að sjóðurinn hafi keypt hlutabréf, yfirleitt í nýstofnuðum félögum, en þess eru líka dæmi að framlag úr sjóðnum hafi verið notað til þess að kaupa hlutafé við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja á starfssvæði sjóðsins. Sömuleiðis hefur talsvert verið veitt af styrkjum til ferðaþjónustufyrirtækja. Staða sjóðsins núna er sú að hann á tæplega 15 millj. kr. á bók, hann á hlutabréf í sex hlutafélögum og bókfært virði þeirra í dag er í kringum 7,5 millj. kr.

Í tímans rás hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. séð um að sýsla með styrkina, það hefur annast móttöku umsókna, séð um reikningshald og í raun alla fjársýslu fyrir Kísilgúrsjóð í samræmi við sérstakan samstarfssamning þar um. Stjórn sjóðsins hefur hins vegar stýrt úthlutunum og samþykkt styrkumsóknir. Atvinnuþróunarfélagið, sem iðnaðarráðuneytið hefur í þessu efni átt ákaflega gott samstarf við, hefur lýst miklum áhuga á því að taka við fjármunum sjóðsins og sjá um ráðstöfun þeirra. Er rétt að geta þess að héraðsnefnd Þingeyinga hefur tekið undir þau sjónarmið. Ef hið háa Alþingi samþykkir frumvarp mitt og ríkisstjórnarinnar að þessum lögum munu reglugerð nr. 476/2001, sem er um starfsemi og tilgang Kísilgúrsjóðs, og reglur nr. 850/2001, um fjárveitingar úr Kísilgúrsjóði, falla úr gildi.

Svo má segja, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að við séum hér að ljúka ákveðnum kafla í atvinnusögunni, það er verið að setja punkt aftan við starfsemi verksmiðju sem á sínum tíma var bæði umdeild og lofuð. Hún skipti mjög miklu máli fyrir uppbyggingu byggðakjarna við Mývatn en vakti jafnframt heiftarlegar deilur eins og jafnvel við sem erum búin að vera tiltölulega skamma hríð á þingi, ekki nema hátt í tvo áratugi, munum mætavel. Hér hafa oft staðið deilur um þessa verksmiðju en í öllu falli munu þær deilur aldrei vakna aftur. Verksmiðjan er hætt og með þessu frumvarpi er lagt til að lögum og reglum sem um þessa starfsemi gilda enn í dag, og þar með Kísilgúrsjóðinn, verði slitið.

Ég mælist til þess, herra forseti, að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnaðarnefndar.