136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

sjúkraskrár.

170. mál
[16:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir gott innlegg og held að ég geti tekið undir flest ef ekki allt sem kom fram í máli hennar. Hún beindi til mín spurningu um innleiðinguna. Það kom ekki fram í framsöguræðu minni en nokkuð er síðan ég setti af stað hóp undir forustu Þorvaldar Ingvasonar, lækningaforstjóra Sjúkrahússins á Akureyri, sem hefur unnið ötullega að því að gera áætlanir um hvernig best sé staðið að innleiðingunni. Eins og við vitum er einn þátturinn lagalega umgjörðin, sem er nauðsynleg, og ég veit að hv. formaður heilbrigðisnefndar og heilbrigðisnefnd munu fara vel yfir þann þátt málsins svo þetta verði að lögum sem fyrst. Ekki skiptir minna máli þegar kemur að því að fjárfesta í þessu nauðsynlega umhverfi að innleiðingin sé gerð á eins hagkvæman og góðan hátt og unnt er. Ýmsar stofnanir hafa fjárfest nokkuð í þessu en augljóst er að yfirsýn hefur skort og að þetta hefur ekki verið gert jafnskynsamlega og mögulegt er. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum fjárlagalið heldur fer þetta meira á viðkomandi stofnanir, en það breytir því ekki að vinna þarf með þetta svo samræmi sé í því. Hugmyndir nefndarinnar verða örugglega kynntar áður en langt um líður og miða þær að því að þetta verði skipulagt fyrir alla heilbrigðisþjónustuna í einu og hugsað um eitt kerfi sem sé þess eðlis að allt féð sem lagt verður í þetta nýtist til að ná markmiðunum sem hér er lagt upp með.

Heildarkostnaðurinn er áætlaður — við vitum hvernig slíkar áætlanir eru — einn og hálfur milljarður þannig að þetta eru umtalsverðir fjármunir en ekki síður er mikilvægt að vel sé vandað til verksins og innleiðingarinnar.