136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

sjúkraskrár.

170. mál
[16:38]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svar sitt. Ljóst er að á undanförnum árum hefur hv. heilbrigðisnefnd og þeir fulltrúar sem í henni sitja lagt mikla áherslu á að koma rafrænni sjúkraskrá á koppinn. Í nánast öllum umsögnum heilbrigðisnefndar til fjárlaganefndar varðandi fjárlagafrumvarpið síðustu árin hefur heilbrigðisnefnd lagt áherslu á og ítrekað mikilvægi þess að rafræn sjúkraskrá væri tekin upp. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að í fjárlagafrumvarpinu sem nú er fjallað um í þinginu verði ákveðið fjármagn sett til hliðar, til að koma málinu áfram. Engum blöðum er um það að fletta að gríðarlega miklu skiptir að tengja upplýsingar sem eru til staðar og koma á tengingarkerfi, sem mun þegar upp er staðið leiða til verulegs sparnaðar innan kerfisins, færri tvítekninga og meira öryggis sjúklinga. Auk þess verða geymdar þar upplýsingar um sjúklinga sem þeir geta haft aðgang að og sannreynt. Upplýsingarnar verða öruggari þegar þær liggja á einum stað en ég endurtek að gæta þarf að persónuverndarsjónarmiðum og hafa strangar reglur um aðgengi.

Ég tel mikilvægt að þrátt fyrir þrengingarnar sem við stöndum frammi fyrir og erfiðleika í fjárlagagerð verði horft til framtíðar og reynt að ýta þessu af stað frá þeim stað sem við erum á í dag.