136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

sjúkraskrár.

170. mál
[16:42]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hárrétt er hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að horfa þarf á þessi mál frá grunni. Verulega langan tíma hefur tekið að þróa þetta og á sama tíma hafa sjúkrastofnanir tekið upp mismunandi kerfi, sem kannski — ef maður notar fagmál — tala ekki saman. Ekki er hægt að færa upplýsingar á milli vegna þess að þau eru svo ólík. Sum kerfin eru íslensk og önnur erlend og í mörgum tilvikum hafa verið lagðar háar fjárhæðir í þróun á kerfum innan lands sem kannski hefði verið betur varið með öðrum hætti. Við megum ekki horfa á það að við séum alltaf að finna upp hjólið hér á landi, ekki það að ég sé að draga úr mikilvægi starfsins sem fram hefur farið heldur leggja áherslu á að á þetta verði horft alveg frá grunni þannig að kerfi sem hægt er að innleiða í alla heilbrigðisþjónustuna verði notað en vandræði skapist ekki vegna þess að kerfin tali ekki saman.

Þar sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er komin í salinn og mun fjalla um málið — geri ég ráð fyrir — verð ég að segja að það vakti töluverða undrun hjá mér þegar Framsóknarflokkurinn var með þetta ráðuneyti hversu illa gekk að koma rafrænu sjúkraskránum áfram. Kannski fjallar hv. þingmaður um það á eftir hvað stóð til. Í sjálfu sér vantaði ekki áhugann en af einhverjum ástæðum gekk þetta ekki eftir. Nú skiptir máli að við horfum fram á við. Nú er verið að skapa lagaramma um rafræna sjúkraskrá og um sjúkraskrá í heild þannig að við skulum ganga héðan og leggja áherslu á það sem kom fram áðan að við höfum tækifæri í þessu litla samfélagi okkar að gera hluti sem ekki eru mögulegir annars staðar, einmitt vegna smæðarinnar.