136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:46]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að nefndin mun reyna að hraða störfum sínum og það hefur komið hérna fram að þetta sérstaka embætti — það má á vissan hátt gagnrýna að það sé sett upp sérstakt embætti, að ekki sé farið bara með málin í þann hefðbundna farveg sem nú þegar er fyrir hendi, þ.e. efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Jóni Magnússyni.

En auðvitað er það þannig, virðulegi forseti, að það að setja upp svona sérstakt embætti tengist því að fyrir skömmu síðan var Baugsmálið til rannsóknar hjá lögreglunni. Það vakti mjög mikla athygli í samfélaginu. Það var mjög gagnrýnt. Þar fóru fremstir í flokki fulltrúar Samfylkingarinnar. Þeir gagnrýndu alveg geysilega mikið þá rannsókn og lömdu á ríkislögreglustjóraembættinu. Þar fóru fremstir í flokki hjá Samfylkingunni hv. þm. Ágúst Ólafur, Lúðvík Bergvinsson og Helgi Hjörvar (Iðnrh.: Hvað með mig?) og töluðu um þessa rannsókn og tortryggðu hana og gagnrýndu líka mjög fjárframlög til ríkislögreglustjóraembættisins. Þessu geta menn bara flett upp ef þeir vilja í bæði blaðagreinum og í þingtíðindunum.

Núna er helsta umkvörtunarefni ríkislögreglustjóraembættisins að það hefur ekki haft nógu mikið fjármagn til að rannsaka og til að veita aðhald á þessum markaði. Nú er því búið að snúa hlutunum algjörlega á haus virðulegur forseti og staðan orðin sú að það er skynsamlegra að setja upp sérstakt saksóknaraembætti til þess að koma í veg fyrir að aðilar geti sakað ríkislögreglustjóraembættið um að vera vanhæft í rannsókninni sem mun fara fram núna. Ég held að það sé skynsamlegt að stofna þetta sérstaka saksóknaraembætti. En vegna fyrri deilumála hér þar sem stjórnmálamenn blönduðu sér mjög mikið inn í það þá getum við ekki farið með þetta inn í almennan farveg heldur þurfum (Forseti hringir.) við að fara inn í sérstakt embætti.