136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim skýringum sem hér hafa komið fram hjá hv. formanni allsherjarnefndar á framgangi þessa máls er varðar hinn sérstaka saksóknara. Ég vil líka verja rétt þingmanna til þess að beina fyrirspurnum úr ræðustóli Alþingis undir liðnum störf þingsins til formanna nefnda og spyrja um framgang mála í nefndunum. Til þess er nú þessi liður hugsaður.

Ég vil hins vegar vara nokkuð við þeirri lagahyggju sem mér þykir einkenna umræðu um þetta tiltekna frumvarp um sérstakan saksóknara, þ.e. þeirrar lagahyggju að þetta tiltekna embætti muni leysa allan vanda og gefa okkur fullkomna yfirsýn yfir það sem aflaga fór í þessu hruni. Því fer auðvitað víðs fjarri. Þessu embætti er ætlað hið þrönga hlutverk að kanna það sem mögulega kann að hafa farið úrskeiðis og verið refsivert. Enginn getur staðfest það fyrir fram hvort þar eru miklir hlutir undir eða ekki.

Það sem er hins vegar algert grundvallaratriði og er farið að há mjög virðingu Alþingis er sá dráttur sem hefur orðið á því að við komum frá okkur frumvarpi til laga um sjálfstæða rannsóknarnefnd á forsendum þingsins sem geti hafið rannsókn á þessu máli öllu þar sem allt liggur undir og allt verður sett upp á yfirborðið, nefnd sem á að vera skipuð hæfustu sérfræðingum, nefnd sem þarf að vinna fyrir opnum tjöldum þannig að almenningur geti reitt sig á að þar sé velt við hverjum steini.

Það háir mjög virðingu Alþingis að þetta mál komist ekki í farveg. Við verðum að taka okkur tak og ljúka þessu sem allra fyrst. Á meðan ganga gróusögur um samfélagið sem draga úr tiltrú jafnt í viðskiptalífi sem í stjórnmálalífi og í stjórnsýslu og það er gríðarlega mikilvægt að við stemmum þessa á að ósi sem allra fyrst.