136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:51]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason talar um að það grafi undan virðingu Alþingis að afgreiða ekki frumvarp sem hefur ekki verið lagt fram á þingi. Og hverjum skyldi það nú vera að kenna að það hefur dregist og tafist að leggja fram nauðsynleg frumvörp í tengslum við bankahrunið, í tengslum við efnahagshrunið? Er stjórnarandstöðunni um að kenna? Ég gat ekki skilið hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson öðruvísi en að hann vildi kenna einhverjum allt öðrum um það en ríkisstjórnarflokkunum. En það er nú einu sinni þannig að það eru stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin sem ráða ferðinni.

Við getum út af fyrir sig tekið umræðu um það að það horfir til aukinnar virðingar Alþingis að Alþingi rísi á fætur og vinni gegn því stjórnræði þannig að það sé eðlilegt þingræði í landinu en við séum ekki undir algjörlega hælnum á ríkisstjórn hverju sinni. Á það hafa menn verið að horfa.

Ég spyr. Hvernig stendur á því að eitthvað kákfrumvarp frá ríkisstjórninni um afléttingu örlítils hluta stimpilgjalda skuli vera tekið fyrir og afgreitt á einum degi. Frumvarp sem kemur fram á mánudegi er afgreitt sama dag. Á meðan liggur frammi miklu betur gert frumvarp frá okkur frjálslyndum um að aflétta stimpilgjaldi vegna íbúðarkaupa. En það liggur í nefnd og fæst ekki afgreitt. Og þannig er það.

Það er nú einmitt það sem grefur undan virðingu Alþingis, hv. þm. Árni Páll Árnason, að góð mál sem eru lögð fram af öðrum en ríkisstjórninni fást ekki afgreidd. Það er talað fyrir sumum þeirra en þau eru ekki afgreidd úr nefnd. Það er til vansa fyrir þing og þjóð. Við eigum að byggja upp þingræðið í landinu. En þá skiptir máli að núverandi stjórnarflokkar standi heldur betur í ístaðinu og vinni að því. (Forseti hringir.)