136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:10]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ein fyrsta krafa Alþjóðgjaldeyrissjóðsins til íslenskra stjórnvalda var hækkun stýrivaxta sem átti að vera liður í því að standa vörð um og treysta gjaldeyrisforðann og draga úr hættu á útflutningi fjármagns. Nýjustu upplýsingar sýna að sú aðgerð var tilgangslaus og margir hafa orðið til að gagnrýna þessa stefnu, hækkun stýrivaxta til að efla gjaldeyrisforðann.

Af því sem kemur fram af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áskilur hann sér rétt til þess að krefjast enn hærri stýrivaxta. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvaða rök og hvaða skipulögð vinna liggur að baki því að stýrivaxtahækkun sé nauðsynleg til að treysta gjaldeyrisforða þjóðarinnar? Mér sýnist miklu mikilvægara að standa vörð um og efla þær atvinnugreinar sem afla útflutningsteknanna og skila erlendum gjaldeyri inn í landið (PHB: Álið?) á þann hátt og það er ekki gert með háum stýrivöxtum sem eru að sliga atvinnugreinarnar. Það er svipuð aðferð og að ætla að seðja bráðasta hungrið með því að höggva af sér hægri höndina og éta hana. (Forsrh.: Meira ál.) Ef forsætisráðherra er svo skyni skroppinn að halda að það besta fyrir sjávarútveginn og útflutningsgreinarnar sé að hækka stýrivextina til að efla gjaldeyrisforðann finnst mér hæstv. forsætisráðherra ekki starfi sínu vaxinn (Forseti hringir.) enda höfum við flutt tillögu um að hann segi af sér. (Forsrh.: Það er búið að hafna því.) Ég held að það sé brýnt fyrir íslenskan gjaldeyrisforða.