136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

jafnræði kynja í ríkisbönkum.

126. mál
[14:50]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa tekið til máls í stuttri athugasemd þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja máls á þessu. Launamunur af þessu tagi, eins og hún lýsti hér áðan, er auðvitað ólíðandi og ég tek undir það að nú er tækifærið þar sem bankarnir eru komnir í ríkiseign að þetta verði ekki með þessum hætti framvegis.

Ég er ein af þeim sem vildi gjarnan sjá fleiri konur komast til áhrifa inn í bankana og fagnaði því mjög þegar tvær konur voru ráðnar sem bankastjórar nýju bankanna. Ég vona að við eigum eftir að sjá fleiri konur hasla sér völl á þessu sviði.