136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

jafnræði kynja í ríkisbönkum.

126. mál
[14:52]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er gott að þessu máli sé hreyft. Ég er einn af þeim Íslendingum sem bý að þeirri lánsemi að eiga sjö systur, aðeins einn bróður, og hef mikið lært af því að alast upp með systrum mínum.

Við tölum hér um mál sem skiptir þjóðfélagið miklu. Ekki er vafi á því í mínum huga að jafnrétti kynjanna mun einungis bæta samfélagið.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við orð hæstv. fjármálaráðherra sem sagði á þá leið að allir stjórnmálaflokkar ættu fulltrúa í bankaráðunum. Frjálslyndi flokkurinn á aðeins einn fulltrúa í einu bankaráði og honum verður ekki skipt í sundur.