136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

143. mál
[15:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Í lok sextán daga átaks fjölda félagasamtaka og aðila á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að láta loksins til skarar skríða eftir mikinn þrýsting og háværar kröfur utan úr samfélaginu og láta vinna íslenska aðgerðaáætlun sem ætlað væri að vinna gegn mansali. Nú eru liðnir nokkuð margir mánuðir síðan starfshópur sem fékk það verkefni að semja þessa áætlun var settur á laggirnar. Þannig að ég tel mikilvægt að fá að vita hvað líður tillögum hópsins. En áformað var að tillögurnar lægju fyrir í apríl síðastliðnum.

Nauðsynlegt er fyrir okkur í því samstarfi sem við erum í og ef við eigum að horfast í augu við veruleikann að vinna svona aðgerðaáætlun. Hvað þarf svona áætlun að innihalda? Til dæmis það að Palermó-samningurinn verði fullgiltur. Við erum eina landið af átta — þ.e. Norðurlöndunum og baltnesku löndunum — sem eiga í mjög nánu samstarfi varðandi mansal sem ekki hefur fullgilt Palermó-samninginn. Einnig er mikilvægt að við fullgildum Evrópusamninginn gegn mansali, en í þessu nána samstarfi átta landa eru aðeins þrjú sem enn hafa ekki fullgilt þann samning og Ísland er eitt þeirra.

Fórnarlambavernd er eitt af því sem mjög mikið er talað um og við þingmenn vinstri grænna höfum ítrekað lagt fram frumvarp á Alþingi um fórnarlambavernd. Þau ríki sem hafa fullgilt fyrirliggjandi samninga hafa skuldbundið sig til að vernda og aðstoða fórnarlömb mansals á ýmsa vegu.

Það er einu sinni svo, hæstv. forseti, að fórnarlömb mansals vita oft ekki að þau eru fórnarlömb mansals. Þau hræðast ekkert meira en lögregluna og þurfa sárlega á aðstoð að halda frá frjálsum félagasamtökum til að styðja við þau gegnum prógrammið sem í boði þarf að vera. Þannig hafa nágrannaríki okkar sett upp aðgerðaáætlanir sem gera ráð fyrir aðkomu frjálsra félagasamtaka.

Líka þarf að tryggja að fórnarlömbin hafi ákveðinn umþóttunartíma til að taka ákvörðun um það að ganga inn í prógramm í landinu þar sem fórnarlömbin uppgötvast. Endurmennta þarf fagstéttir, dómara, lögreglu og kynferðisbrotadeild hennar, heilbrigðisstéttir, kennara og fleiri og styrkja frjáls félagasamtök sem eru líkleg til að koma auga á fórnarlömb mansals.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ég ber upp fyrirspurn um hvað líði tillögum um aðgerðaáætlun gegn mansali sem áformað var að yrði tilbúin í apríl.