136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

geymslumál safna.

167. mál
[15:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Fyrirspurn sú sem ég hef hér lagt fram fyrir hæstv. menntamálaráðherra á sér rætur í umræðum sem fóru fram hér á síðasta þingi. Þá ræddum við í menntamálanefnd talsvert mikið um geymslumál Listasafns Íslands sem eru í miklum ólestri og fórum í sérstaka heimsókn til listasafnsins og sáum með eigin augum á hvern hátt málum er ábótavant í þeirri ágætu stofnun. Þar ríkir mikið ófremdarástand og menntamálanefnd var sammála um að vinda yrði bráðan bug á geymslumálum Listasafns Íslands. Í framhaldi af því rak svo á fjörur mínar skýrsla sem samin var fyrir menntamálaráðherra í nóvember 2006 sem varðar varðveislu- og geymslumál menningarstofnana. Sennilega er sú skýrsla kveikjan að því að á fjárlögum yfirstandandi árs eru 70 millj. kr. áætlaðar til að gera úrbætur í geymslumálum safna.

Ljóst er af skýrslu þeirri sem ég nefndi að það er mikil þörf til staðar en brýnustu varðveisluverkefnin samkvæmt skýrslu nefndarinnar eru hjá Listasafni Íslands og Þjóðskjalasafni Íslands og að þau verði leyst nú þegar. Það kemur líka fram í skýrslunni að það séu ákveðin áform um sameiginlegt þjónustu- og varðveisluhús fyrir höfuðsöfnin tvö sem starfa að safnalögum, þ.e. Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands, og að slíkt hús verði byggt á lóð Þjóðminjasafnsins við Vesturvör. Í skýrslunni er líka fjallað um þörfina á að taka ákvörðun um framtíðarsetur Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveginn. Það mál hefur líka komið til skoðunar í menntamálanefnd. Samkvæmt skýrslu nefndarinnar er talið að leigja þurfi eða byggja allt að 5.400 fermetra varðveislubyggingu fyrir fjargeymslur Þjóðskjalasafns Íslands og Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns og að full þörf sé á að veita fjármuni til að ljúka innréttingum í geymslum Kvikmyndasafns Íslands á næstu fimm árum. Að lokum telur nefndin svo að leigja þurfi eða byggja allt að 1.500 fermetra geymslubyggingu fyrir Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn.

Við skulum athuga það, hæstv. forseti, að hér er ekki um geymslur undir eitthvert gamalt dót að ræða. Hér er um að ræða geymslur yfir þjóðararfinn okkar, þjóðargersemar okkar. Það er mjög mikilvægt að búin verði til skipuleg eða heildstæð áætlun um það á hvern hátt eigi að forgangsraða í þessum málaflokki, hver fjárþörfin er og hvernig farið verði í framkvæmdir. Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra um stöðu þessara mála og er forvitin að fá að heyra hvernig þeim 70 millj. kr. sem ætlaðar eru til þessara mála á yfirstandandi fjárlagaári hefur verið ráðstafað.