136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

geymslumál safna.

167. mál
[15:42]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mótmæli því eindregið að lítið hafi verið gert í geymslumálunum. Við greindum vandann og hann var náttúrlega brýnn. Hann var annars vegar brýnn og hins vegar vandi sem við þurfum að leysa til lengri tíma. Þar tengjast húsnæðismálin. Það er ekki hægt að slíta í sundur annars vegar geymsluvandann til lengri tíma og síðan húsnæðismál þessara menningarstofnana. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála hvað það varðar að finna þarf varanlegt húsnæði fyrir þær stofnanir sem ég talaði um.

Það er hins vegar alveg rétt að við höfum ekki fundið varanlegar geymslur í heild sinni fyrir listasafnið, Þjóðminjasafnið og hugsanlega Þjóðskjalasafnið líka til lengri tíma. Við höfum einfaldlega ekki fundið slíkt húsnæði og við gátum ekki og höfðum ekki fjármuni til að ráðast í byggingu sem væri sérstaklega ætluð sem geymsla. Ég held hins vegar að hluti af þeirri heildarmynd sem blasir við okkur og við þurfum að ná niðurstöðu um sé að líta til þeirra kosta að samnýta geymslur þessara menningarstofnana og það verði þá þvert á menningarstofnanir. Við höfum ekki enn fundið slíkar lausnir.

Mikilvægast fyrir okkur er að menningarverðmætin glatist ekki, að þau eyðileggist ekki. Það er að sjálfsögðu rétta forgangsröðunin að setja þau verk og þá muni sem eru í bráðri hættu í slíkar geymslur, vel útbúnar geymslur og góðar geymslur, að þeir eyðileggist ekki. Þessum fjármunum, þ.e. 70 milljónum, höfum við varið m.a. í að setja yfir muni í Listasafni Íslands, yfir skjöl úr Þjóðskjalasafninu til að byggja þar þannig umhverfi að ekki hljótist skaði af. Það er hinn bráði vandi, síðan getum við alltaf rætt um framtíðarmúsíkina eins og ég talaði um, hvernig við sjáum hag Listasafns Íslands til lengri tíma borgið, Þjóðminjasafnsins, Þjóðleikhússins og síðan ekki síst Náttúruminjasafnsins sem við höfum oft rætt í þessum sal.