136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

skipan nýs sendiherra.

[10:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í samfélaginu í dag er gerð rík krafa til stjórnmálamanna að viðhafa ásættanleg vinnubrögð. Um daginn lýsti hæstv. utanríkisráðherra því yfir að stefnt væri að sparnaði í utanríkisþjónustunni, m.a. með fækkun á sendiskrifstofum og sendiherrum. Í leiðinni tilkynnti svo hæstv. ráðherra það að nýr sendiherra hefði verið skipaður í ráðuneytinu sem er náinn samverkamaður hæstv. ráðherra til margra ára, Kristín Árnadóttir, sem er vafalaust ágætismanneskja en hefur verið pólitískur samstarfsmaður ráðherrans um árabil. Pólitískar stöðuveitingar virðast því ekki heyra sögunni til, því miður, þrátt fyrir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hæstv. ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, skuli vera komin í utanríkisráðuneytið.

Það var gríðarlegur kurr í fólki þegar þáverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, skipaði níu sendiherra á einungis örfáum mánuðum, þar af marga pólitíska samherja á sínum tíma. Í framhaldinu tók núverandi formaður Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, við keflinu og varð utanríkisráðherra. Hún skipaði engan sendiherra þann tíma sem hún var utanríkisráðherra og tók áskorun starfsmanna utanríkisráðuneytisins um að fagleg sjónarmið ættu að ráða við skipun sendiherra.

Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tekið við keflinu af Davíð Oddssyni, þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, og skipað pólitískt sendiherra og þar með talda ágætismanneskju sem heitir Kristín Árnadóttir sem er einn nánasti samstarfsmaður Ingibjargar Sólrúnar í stjórnmálum um árabil. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig er það réttlætanlegt að fjölga sendiherrum á þessum tímum þegar talað er um að fækka (Forseti hringir.) sendiherrum? Ég vil fá svör við þessu því að það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra gengur ekki í takt við þjóðina í þessu máli.