136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

skipan nýs sendiherra.

[10:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að í utanríkisþjónustunni hafi verið of margir sendiherrar sem eru, ef svo má að orði komast, í eldri kantinum og þar af leiðandi hafi yngra fólk í þjónustunni ekki haft þann framgang sem þyrfti. Nú eru allmargir að hætta, hafa þegar hætt og munu hætta á þessu ári eins og ég gat um áðan. Það skapar ákveðið svigrúm í þjónustunni. Ég held að það skapi annars vegar svigrúm fyrir framgang fyrir yngra fólk í þjónustunni en jafnframt svigrúm til að fjölga konum í þjónustunni … (Gripið fram í: Já …) — fjölga konum í sendiherrastöðum sem hafa verið mjög fáar. Ef horft er á þjónustuna er það þannig að fyrir utan sendiherrahópinn, í næsta hópi þar fyrir neðan, eru einungis tvær konur sem hafa verið einhvern tíma í embættismennsku í utanríkisþjónustunni. Þannig er nú staðan í utanríkisþjónustunni.