136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

réttarstaða fólks við uppsagnir.

[10:42]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Spurt er hvernig við í félagsmálaráðuneytinu og Vinnumálastofnun munum tryggja rétt starfsfólks sem sagt er upp. Það gilda náttúrlega lög í þessu landi að því er varðar uppsagnir, hópuppsagnir og fleira, og eftir þeim er farið varðandi uppsagnarfresti og annað. Við vitum að við erum að ganga inn í vaxandi atvinnuleysi sem spáð er að geti orðið 8% í janúarmánuði næstkomandi þannig að það er alveg ljóst að mjög margir verða fyrir uppsögnum. Við fórum út í það með góðri aðstoð á þinginu — ég hygg að allir flokkar hafi verið því sammála — að tryggja lög um hlutastörf einmitt til þess að atvinnurekandi gæti þá valið að bjóða starfsfólki hlutastarf og atvinnuleysisbætur á móti í stað þess að segja því upp þannig að höggið yrði ekki eins mikið. Ég hygg að mjög margir reyni að nýta sér þá leið og ég finn það bæði hjá atvinnurekendum og starfsfólki að fólk vill hafa þessa úrlausn frekar en segja fólki upp. Ég hygg að þessi leið muni alveg örugglega vernda betur rétt starfsfólks á þessum tímum sem við lifum núna sem fylgja miklar uppsagnir. Hjá því verður ekki komist.

Síðan erum við með margvíslegar aðgerðir í gangi hjá Vinnumálastofnun sem við beitum, þ.e. vinnumarkaðsaðgerðir og vinnumarkaðsúrræði. Við erum að skoða fleiri leiðir en eru til staðar núna sem tengdar eru Atvinnuleysistryggingasjóði í samvinnu við menntamálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið. Væntanlega verða kynntar aðgerðir á næstu dögum þannig að við erum að reyna að tryggja að fólk missi ekki alveg vinnu sína, að til séu úrlausnir en hjá því verður þó ekki alveg komist. (Forseti hringir.) Ég hygg að hv. þingmaður geti verið mér sammála um að við getum ekki komið í veg fyrir allar þær uppsagnir sem fram undan eru.