136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

réttarstaða fólks við uppsagnir.

[10:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að við stöndum frammi fyrir gríðarlegum vanda og sérstaklega að lítið bólar á sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum, aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar til að standa vörð um og efla atvinnulífið á móti þeim hremmingum sem við stöndum frammi fyrir. Engu að síður hygg ég að ráðherra geti verið mér sammála um hversu mikilvægt er að standa samt vörð um réttindi fólks. Í svona miklum hópaðgerðum er sérstök ástæða til að vera á verði. Ég vona að hæstv. ráðherra geti verið mér sammála um að það sé virkilega ástæða til að vera á verði svo ekki verði gengið á réttindi fólks.

Tökum t.d. hið opinbera. Boðaður er 10% niðurskurður í heilbrigðiskerfinu þar sem nánast allt er laun. Hvar á hann að koma niður? Það er alveg sérstök ástæða til að einmitt (Forseti hringir.) í yfirstandandi erfiðleikum sé staðinn vörður um grunnréttindi fólks til vinnu.