136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

endurhverf viðskipti.

[10:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum vikum krafðist Seðlabankinn aukinna trygginga fyrir lán sem hann hafði veitt ýmsum smærri fjármálafyrirtækjum. Þetta setti fjármálafyrirtækin í ýmsan vanda, þau eru misjafnlega vel sett og misjafnlega vel búin til að taka við þessum veðköllum. Sum gátu reitt fram tryggingar en önnur fengu fresti, en niðurstaðan varð að þetta reyndist þeim flestum þungbært. Það má segja að þetta hafi verið afar ósanngjarnt þar sem hin smáu fjármálafyrirtæki voru aðeins milliliðir í lánum Seðlabankans til viðskiptabankanna þriggja.

Við setningu neyðarlaganna var þessi mynd skekkt. Má því kannski segja núna að ríkið hafi lánað sjálfu sér, en svo þegar bönkunum var skipt í tvennt hafi eignin sem myndaðist fyrir lánin verið tekin í burtu en skuldin skilin eftir. Þetta hefur haft þau áhrif að mörgum hinna smærri fjármálafyrirtækja er í raun núna haldið í algerri spennitreyju. Þau hafa lítið getað hreyft sig og þau bíða í rauninni eftir því að stjórnvöld gefi skýr svör um það hvort unnið sé að lausn þessara mála. Mér er kunnugt um að ýmsar góðar lausnir hafi verið lagðar á borðið og því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra:

Er einhver vinna í gangi til að leysa úr þessari flækju? Mun fjármálaráðherra beita sér fyrir því að hin smærri fjármálafyrirtæki fái áfram lifað? (Forseti hringir.) Í mínum huga er það grunnurinn að endurreisn fjármálakerfis landsins.