136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[13:58]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta Alþingis fyrir að hafa leitt það starf að ná saman þeim frumvarpsdrögum sem hér liggja fyrir Alþingi og kynningu hans á málinu í morgun.

Það er mikilsvert að forustumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi sameinist um það undir þeim óvanalegu kringumstæðum sem nú eru uppi í þjóðfélagi okkar að koma á þeim vettvangi, rannsóknarnefnd og rannsókn sem hér er lagt upp með í frumvarpinu. Auðvitað erum við sem að þessu stöndum búin að sitja þó nokkra fundi yfir þessu máli og velta fyrir okkur málsgreinum, setningum og rökum fram og til baka, þ.e. hvað eigi að vera í þessum textum og svo framvegis. Þegar hópur fólks vinnur saman, oft á mörgum fundum um sama málefni, endar með því að menn sammælast um texta og meiningar sem þeir sem fundina sitja telja allgóðar og nái yfir þau efnisatriði sem þeir vildu ná fram. Ég hygg nú að við höfum náð fram mörgu af því sem við vildum stefna að. En það breytir hins vegar ekki því að þegar málið kemur í Alþingi og fer síðan væntanlega til umfjöllunar í allsherjarnefnd kunna aðrir sem fjalla um textann og útfærsluna að hafa á því aðrar skoðanir t.d. varðandi hverju megi bæta við eða fella út og svo framvegis.

Ég held samt að við hljótum öll að vera sammála um að við ætlum að leiða fram með þessari rannsóknarnefnd söfnun upplýsinga um það ferli sem íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir, hver hafi verið orsök þess og hvaða starfshættir hafi viðgengist á fjármálamarkaði, hvaða siðferði hafi verið í málum almennt, og byggja það á bestu fáanlegum upplýsingum. Í því skyni er lagt upp með að öllum skuli skylt að fara fyrir nefndina og svara því sem óskað er eftir, þar með verði aflétt bankaleynd og öðru slíku sem er nauðsynlegt í þessum málum.

Auðvitað kann hverjum og einum að finnast að það verði erfitt að leita sannleikans. En að sjálfsögðu er stefnt að því að leita að sannleikanum um atburðarás þessa máls þótt þegar upp er staðið kunni ýmsum að finnast að ekki hafi allur sannleikurinn verið settur upp á borðið. Þannig hygg ég að sé með öll mannanna verk, aldrei verða menn sammála um hver sannleikurinn hafi verið í málinu. En allt að einu láta menn í ljós vilja sinn til þess að það sem þeir vita sannast og réttast og að það sem byggt er á samtölum, upplýsingum, gögnum og vitnaleiðslum og öllu sem fram er kallað með þessu ferli nálgist að vera það sem við vitum best að er satt og rétt.

Við leitumst við að gera það þannig að íslenska þjóðin viti að að þessu marki hafa menn stefnt með því að setja rannsóknarnefndina á fót. Jafnframt er stefnt að því að þjóðin sé upplýst sem allra best um það ferli sem hér fer af stað rannsókn á og sem orðið hefur til þess að við höfum lent í alvarlegustu aðstæðum, hygg ég, sem íslenska þjóðin hefur lent í. Við munum þurfa að bera ýmsar byrðar á komandi árum vegna þeirra atburða sem hér hafa orðið. Þar af leiðandi er afar nauðsynlegt að við förum í gegnum allan aðdraganda þessa máls, leiðum það fram að því marki sem nefndin telur nauðsynlegt. Þá á einnig að rannsaka atburði sem áttu sér stað eftir gildistöku þeirra laga sem kölluð hafa verið neyðarlögin, lög nr. 125/2008, og gera tillögu um rannsóknir á slíkum atburðum. Nefndin getur fylgt eftir málum eftir gildistöku þessara laga til þessa dags og þess vegna einhverja mánuði fram í tímann ef hún telur það nauðsynlegt rannsóknarinnar vegna.

Ég ætla svo sem ekki að flytja langa ræðu um frumvarpið að þessu sinni en ég tel að inn í það sé dregið það sem nauðsynlegt er. Stofnuð er þriggja manna nefnd sem á að sjá um verkstjórn alls málsins. Hún mun skipa sér vinnuhópa og svo framvegis til þess að fara í gegnum einstök atriði mála. Þeir vinnuhópar geta bæði verið skipaðir innlendum og erlendum aðilum eftir því sem þörf krefur, með það að markmiði að leiða það fram sem sannast er talið og komast sem næst því að finna sannleikann, hvort sem það verður gert í endanlegri skýrslu nefndarinnar eða í áfangaskýrslum sem nefndin hefur einnig á valdi sínu að setja fram.

Ég lét það koma fram í störfum nefndarinnar að ef nefndin ætlar að leggja fram áfangaskýrslu í þessu máli, sem vel kann að vera ef hún telur sig vera komna með upplýsingar sem rétt er að koma til þjóðarinnar, tel ég að slík áfangaskýrsla eigi að liggja fyrir hv. Alþingi eigi síðar en á vordögum áður en Alþingi fer heim. Það væri afar óheppilegt — ég ætla að láta það koma fram í máli mínu — ef menn verða komnir með upplýsingar sem þeir telja eðlilegt að koma á framfæri sem svo birtist kannski tíu til tuttugu dögum eftir að Alþingi er hætt störfum að vorlagi. Ég bendi á að í starfsáætlun þingsins er gert ráð fyrir að við störfum fram til 9. júní.

Við lengjum auðvitað starfstíma Alþingis og nefndin á þess vegna að skila af sér endanlegri skýrslu í nóvember. Ég mælist til þess og vil láta þess getið að ég tel að ef efni er til í áfangaskýrslu eigi það að birtast okkur áður en þing fer heim svo að við fáum tækifæri til að ræða það sem þá liggur fyrir hér í þinglok á vordögum. Það kunna að vera ýmsar upplýsingar sem nauðsynlegt er að birtist opinberlega og þingmenn fái að ræða.

Nefndin er hins vegar algjörlega óháð í störfum sínum. Hún tekur ekki við skipunum frá Alþingi og fylgir því rannsóknarferli sem hún telur nauðsynlegt í öllum málum. En það breytir hins vegar ekki því að þessi mál verða tilefni mikillar umræðu í þjóðfélaginu þegar þau birtast okkur síðar í skýrslu.

Ég tel eðlilegt og beini því til hv. nefndar að velta því fyrir sér án þess að það sé skrifað inn í lagatextann að æskilegt er ef nefndin hyggst skila áfangaskýrslu á fyrri hluta árs 2009 að lögð verði áhersla á að slík skýrsla verði kynnt áður en Alþingi lýkur störfum í vor.

Ég vænti þess að verkið unnið markvisst og hratt af þeim þremur valinkunnum fulltrúum sem stýra verkinu og að nefndin nái skilvirku skipulagi og vinnuferli einmitt vegna þess hversu fámenn hún er. Hún stýri þeim verkum sem undir hana heyra en auðvitað munu allir vinnuhópar sem settir verða á laggirnar heyra undir nefndina. Hún fylgist með því.

Síðan er gert ráð fyrir sérstökum vinnuhóp sem forsætisnefnd skipar. Komið hefur fram í ræðum eins eða tveggja þingmanna sem flutt hafa hér mál að þessi liður mætti alveg eins heyra beint undir nefndina með því verklagi sem þar er sett upp fyrir aðra vinnuhópa. Það má velta þeim möguleika fyrir sér en svona völdum við að setja þetta upp eftir langar umræður í nefndinni. Það varð samkomulag um að hafa skipulagið með þeim hætti sem hér er lagt upp með.

Síðan er í öðrum greinum frumvarpsins gerð grein fyrir alls konar rannsóknarheimildum á málsmeðferð á 6. gr. og einhver aðgangur er að gögnum, munnlegum upplýsingum undanskildum leynd og trúnaðarskyldu fólks sem mætir fyrir nefndina. Jafnvel er hægt að fara með mál til héraðsdóms ef ágreiningur verður um upplýsingaskyldu.

Við höfum reynt að sjá fyrir sem flest atriði í þessu máli þannig að ekkert ætti að geta hindrað nefndina í störfum sínum við að fá fram þær upplýsingar sem hún vill fá fram. Hún ætti að geta stundað rannsóknir sínar eftir þörfum og þess vegna farið á vinnustaði og skoðað gögn og upplýsingar.

Hæstv. forseti. Ég tel að það sem mikið hefur verið rætt um í þjóðfélaginu, að leiða verði alla hluti í ljós sem orðið hafa tilefni þess að svo er komið fyrir íslensku þjóðinni, sé sett upp í þessu frumvarpi og skrifaður utan um það texti. Að sjálfsögðu hafa þingmenn kannski einhverja aðra sýn eða meiningar þegar þeir koma að málinu en ég held að okkur hafi tekist sæmilega til.