136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er svo mikill blekkingarleikur. Fyrst er haldinn blaðamannafundur rétt fyrir kvöldfréttir svo ekki sé hægt að fara mjög ítarlega í efni hans, samkvæmt ráðgjöf hernaðarsérfræðingsins frá Noregi. Á fundinum er tilkynnt að samkomulag hafi náðst við bæði Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana og þess vegna muni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn afgreiða lán sitt og lánsbeiðni í vikunni á eftir.

Þá var búið að ganga frá báðum málunum sem nú eru komin inn á Alþingi svo Alþingi geti stimplað þau án þess að vita hvað felst í þeim. Annars vegar eru Icesave-reikningarnir og hins vegar samningurinn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Alþingi hefur ekki staðfest hann en samt verður að láta hann virka.

Hvernig Alþingi er notað með þessum hætti er mjög óviðurkvæmilegt. En samt krefjumst við þess að áður en þessi eftirágjörningur verði afgreiddur frá Alþingi liggi fyrir allar þær upplýsingar sem ég hef rakið hér þannig að þær verði ekki áfram hafðar í pukri og yfir þeim leynd. Síðan er sagt við Alþingi og alþingismenn að þeir eigi að samþykkja 600, 700 eða 800 milljarða kr. skuldbindingar á íslenskan almenning. En megi ekki spyrja um skilmálana eða hvers vegna eða hvort endilega þurfi að gera það.

Ég er fylgjandi því að við stöndum við lagalegar skuldbindingar okkar. En þær eiga þá líka að vera á hreinu og vinna á fyrir opnum tjöldum. Ekki er hægt að segja að þetta mál hafi verið unnið þar. Þetta hefur allt verið unnið í myrkri (Forseti hringir.) og er áfram í myrkri.