136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst að hv. þm. Árni Páll Árnason, og að ég held stjórnarliðið í það heila, er miklum mun lítillátari en sú sem hér stendur og þjóðin sem kallar eftir upplýsingum um þetta mál og hefur gert það frá því að upplýst var hvers kyns þessir Icesave-reikningar væru og hvaða kröfur Bretar væru að leggja á herðar okkar.

Þegar íslensk stjórnvöld hafa verið að bauka úti í Brussel og í Bandaríkjunum við að semja um hvernig eigi að leggja þessar byrðar á komandi kynslóðir Íslendinga hafa pappírarnir ekki verið uppi á borðum og ég vek athygli á því að þeir eru þar ekki enn þá.

Hv. þingmaður nefndi áðan að það væri út í hött að veita upplýsingar um hvað stæði í skjölum meðan að samningaviðræður væru í gangi. Það er eins og hv. þingmaður haldi að mótaðilinn viti ekki hvað stendur í þessum pappírum. Ég fullyrði að Hollendingar vita nákvæmlega hvað stendur í pappírunum sem Árni Mathiesen skrifaði undir. Það er ekki verið að skemma neinar samningaviðræður með því að birta þá. Fyrst að Hollendingar vita það þá veit Evrópusambandið það væntanlega og sama á við um Breta af því að þar lágu fyrir svipuð drög því það var fyrirhugað að leysa þetta svona. Nei, þetta er þögn ríkisstjórnarinnar og það var þema þessara pappíra. Það að koma fyrst núna með þetta hingað inn eftir að hafa fleygt þessu í fréttir Ríkisútvarpsins fimm mínútur fyrir aðalfréttatíma á sunnudegi er bara eins og annað. Þessi ríkisstjórn er rúin trausti. Hún hefur ekki haft samráð við stjórnarandstöðuna í þinginu um þessi mál (Gripið fram í.) og hún hefur gert þetta á bak (Forseti hringir.) við þing og þjóð.