136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að standa hér og koma með fullyrðingar um, eins og hv. þingmaður gerir, að allt sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi sagt um eðli og umfang samninganna sé rangt. Það er nú stórt orð Hákot, hv. þingmaður. Mat hv. þm. Árna Páls Árnasonar er að allt hafi verið gert fyrir opnum tjöldum og án nokkurrar leyndar. Eins og ég sagði áðan, er það hans mat og hann má hafa það. Þjóðin er einfaldlega á öðru máli.

Ég hef ekki sagt að ráðherrarnir hafi ekki verið yfirlýsingaglaðir. (Gripið fram í.) Þvert á móti hafa þeir fyrir fram sagt að niðurstaðan sem hér er lögð fyrir þingið sé kúgun og knésetning. Það var sagt fyrir fram að vísu, ekki eftir á, og þess vegna er það tekið hér til umræðu. Knésetning og kúgun eru ekki mín orð heldur orð hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra.

Hér hafa verið lagðar fram margar spurningar sem lúta að því hvers vegna þessi kúvending varð í málinu og ég bíð eftir að heyra hæstv. utanríkisráðherra svara þeim. Ég fagna því að þetta þingmál sé loks komið fram, en lít svo á að samkomulagið sem hér liggur fyrir sé ansi dýrkeyptur aðgangur að prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem ýmsir telja að við þurfum ekki einu sinni á að halda.