136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tvennt í máli hv. þingmanns vil ég gera að umtalsefni. Annars vegar segir hann réttilega að allt eigi að vera undir í einum samningi og það er nákvæmlega sá ávinningur sem við fáum út úr aðkomu Evrópusambandsins. Í staðinn fyrir að semja við Hollendinga sér og Breta sér og Þjóðverja sér er samið sameiginlega við öll Evrópusambandsríkin um fyrirkomulag og tryggt að tekið sé tillit til sérstöðu Íslands og þeirra sérstöku aðstæðna sem hér ríkja. Hv. þingmaður nefndi að ríkin gerðu kröfur um háa vexti á lánum sem við þyrftum á að halda til að geta staðið skil á skuldbindingunum. Við viljum forðast þá aðstöðu og viðurkenning Evrópusambandsins á sérstöðu Íslands gerir okkur kleift að krefjast þess að ekki verði gerðar óeðlilegar og of miklar kröfur um vexti eða aðra skilmála lánanna.

Virðulegi forseti. Ljóst er að meira tillit er tekið til sérstakra hagsmuna okkar vegna aðkomu Evrópusambandsins að málinu. Ég skil það svo að samningar sem gerðir verða á grundvelli umboðsins sem Alþingi veitir nú, komi efnislega fyrir Alþingi. Annars vegar geri ég ráð fyrir að haft verði samráð við utanríkismálanefnd Alþingis áður en gengið er frá samningum, eins og áskilið er í 24. gr. þingskapalaga, og hins vegar komi samningarnir fyrir Alþingi í samræmi við efni þeirra, fjárhagslegar skuldbindingar í gegnum fjárlög og önnur ákvæði til staðfestingar eftir því sem efni þeirra leyfir.