136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir þakklætiskvak hv. þingmanns til Evrópusambandsins. Það get ég ekki vegna þess að þegar Hollendingar og Bretar fengu ESB í lið með sér til að berja á Íslendingum gáfumst við loks upp, herra forseti. Þangað til töldum við okkur eiga von í það að fá lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með eðlilegum hætti eins og aðrar þjóðir sem þar eru. Þrátt fyrir að Hollendingar og Bretar séu með stjórnarmenn í þeim sjóði gátu þeir í rauninni ekki með góðu móti kúgað okkur fyrr en að Evrópusambandið kom og hjálpaði þeim. Þá loksins gáfust ráðherrarnir, samflokksmenn hv. þingmanns, upp.

Svo hefur allt þetta dæmi að sjálfsögðu eyðilagt mannorð Íslendinga um alla Evrópu. Það er lítið talað um það. Mannorðið er algjörlega farið með yfirlýsingum bæði breskra og hollenskra vina okkar í Evrópusambandinu sem hv. þingmaður dáir svo mjög.

En ef hv. þingmaður gefur mér þá yfirlýsingu að hann muni styðja í utanríkismálanefnd að sá samningur sem gerður er verði borinn undir Alþingi — og ef hæstv. utanríkisráðherra gefur mér þá yfirlýsingu enn frekar sem er enn verðmeira — get ég að sjálfsögðu stutt þetta.