136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins til að víkja hér að tveimur atriðum til viðbótar, tveimur spurningum sem mig langar til að varpa inn í umræðuna, þá til hæstv. utanríkisráðherra og til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd.

Við ræddum fyrr í dag frumvarp til laga um sérstaka rannsóknarnefnd og henni er ætlað að leita sannleikans, eins og segir þar, um aðdragandann og hverjir báru ábyrgð og hvað varð til þess að fjármálakerfið og bankakerfið á Íslandi hrundi.

Við vitum öll að það er þessi starfsemi bankanna erlendis sem kollsigldi íslensku efnahagslífi. Tólfföld skuldbinding miðað við þjóðarframleiðslu sem við fáum nú í höfuðið. Það er alveg ljóst að það eru nokkur atriði sem við hefðum getað gert. Við hefðum væntanlega getað beitt tilteknum reglum til þess að lágmarka eða draga úr þessum skaða.

Ég vil nefna fyrst að Fjármálaeftirlitið íslenska hefði mátt koma í veg fyrir frekari opnun útibúa á erlendri grundu. Það er alveg klárt. Hæstv. viðskiptaráðherra sagði hins vegar aðspurður um þetta að það hefði jafngilt því að taka rekstrarleyfið af mönnum. Ég held að þetta sé ekki rétt vegna þess að þarna voru blikkandi aðvörunarljós og ég tel að fara þurfi rækilega ofan í saumana á því af hverju Fjármálaeftirlitið greip ekki til aðgerða til þess að koma í veg fyrir þessa útþenslu eða hvort það var vegna þess að Fjármálaeftirlitið hafði ekki heimildir til þess.

Í öðru lagi nefni ég afléttingu bindiskyldu í útibúum erlendis sem Seðlabankinn greip til í mars sl. Ég leyfi mér að spyrja hvort það hafi í rauninni verið krafa frá Evrópusambandinu að bindiskyldunni yrði aflétt til að jafna samkeppnisstöðu við aðra banka innan ESB. Ég spyr: Hvaða forsendur, hvaða ástæða var fyrir þeirri furðulegu aðgerð að létta bindiskyldu af þessum útibúum í vor?

Í þriðja lagi spyr ég: Hvað gerðist? Af hverju lá í nefnd, missirum saman eftir því sem manni skilst, ábending um að Fjármálaeftirlitið eða viðskiptaráðuneytið — ég veit nú varla hvort — gæti nýtt sér heimild til að aflétta ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðureikninga á reikninga lögaðila, þ.e. sveitarfélaga og annarra fyrirtækja, sem taldir eru í þeirri undanþágu hafa svo mikla og stóra hagsmuni að þessi smáfjárhæð 20.887 evrur sem er tryggingaviðmiðunin skiptir þær ekki máli? Í regluverki Evrópusambandsins er sem sagt undanþáguheimild sem ekki var nýtt. Og ég hlýt að spyrja: Hverju hefði það breytt ef til þessara aðgerða hefði verið gripið, þ.e. hvað þetta aðgerðaleysi kostaði í þessu dæmi?

Þetta, herra forseti, eru þau atriði sem ég kom ekki að í fyrri ræðu minni hér áðan en óska eftir að leggja inn í málið.