136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tvennt af því sem hv. þingmaður nefnir í ræðu sinni eru atriði sem ég held að ég geti reynt að varpa ljósi á. Annars vegar staðhæfði þingmaðurinn að Fjármálaeftirlitið hefði getað bannað opnun útibúa. Það er algjörlega ljóst að Fjármálaeftirlitið gat ekki hindrað fyrirtæki með starfsleyfi í að opna útibú erlendis. Heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að banna slíkt eru bundnar við að fyrirtækið ráði ekki við rekstur sinn, sé ekki rekstrarhæft í raun, sé ekki hæft til þess að bera rekstur. Það jafngildir réttilega, eins og hæstv. viðskiptaráðherra hefur sagt annars staðar, í reynd auðvitað yfirlýsingu um að viðkomandi banki sé við það að fara í þrot eða sé kominn í þrot. Það var ekki valkostur. Fyrirtækin hafa þennan sjálfstæða rétt, rétt eins og þau mega opna útibú á Patreksfirði. Það er enginn eðlismunur á því samkvæmt þessum reglum. Ekki neinn.

Virðulegi forseti. Að því er varðar bindiskyldu útibúa sem Seðlabankinn ákvað er það ákvörðun sem Seðlabankinn tók. Það er nú varlegt að reyna að ráða í þær rúnir sem geta lýst afstöðu Seðlabankans en kannski hv. þingmaður ætti að reyna að finna eitthvað út úr því hvað leiðarljós lífs formanns hennar, formaður bankastjórnar Seðlabankans, hefur verið að hugsa í þessu máli.

Það er aðgerð sem orkar mjög tvímælis nú þegar horft er til baka því að þarna var virkilega skapað aukið svigrúm útibúanna til að efna til skuldbindinga sem við sjáum í dag að voru með þeim hætti að viðkomandi bankar voru ekki í standi til þess — eða viðkomandi banki sérstaklega, Landsbankinn, var ekki í standi til að koma tilsvarandi eignum yfir í dótturfélag svo að skuldbindingarnar gætu (Forseti hringir.) vistast þar.