136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:12]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta, þetta er einhver þráhyggja sem hv. þingmaður hefur þegar hann talar hér um leiðarljós lífs formanns hennar (Gripið fram í.) og meinar þá sem hér stendur.

Ég vísa þessu bulli á bug. Ég spurði hér alveg konkret spurningar. Ég spurði hvort Seðlabankinn hefði afnumið bindiskyldu í útibúum bankanna erlendis vegna tilmæla frá Evrópusambandinu til þess að rétta samkeppnisstöðu evrópskra banka gagnvart íslensku bönkunum. Það þýðir ekkert að snúa sig út úr þessu með því að benda á eitthvað annað, hv. þm. Árni Páll Árnason.

Ég efast stórlega um að Fjármálaeftirlitið hafi ekki heimildir eða hafi ekki haft heimildir til þess að koma þessum útibúum bankanna yfir í dótturfélög. Það var nefnilega nákvæmlega það sem bæði breska fjármálaeftirlitið og íslenska Fjármálaeftirlitið segjast hafa verið að reyna að gera, væntanlega með heimildum, við skulum ekki ætla þeim að þeir hafi ekki haft heimildir til þess, hv. þingmaður.

Spurningin er: Af hverju gerðu þeir það ekki fyrr? Ég tel alveg nauðsynlegt að fá bara útreiknað hvað þetta aðgerðaleysi eða dráttur á aðgerðum kostar í því stóra dæmi sem við erum að tala um hér.