136. löggjafarþing — 38. fundur,  27. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[20:40]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það verður nú að segja það alveg eins og það er að málsmeðferðin er aftur og aftur afar óvenjuleg hér í hv. þingi. En það er kannski vegna afar sérstakra aðstæðna í íslensku þjóðfélagi sem svo er að verki staðið. Við vorum bara að fá þetta frumvarp á borðin og erum nú búin að heyra framsögu hæstv. ráðherra.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, fyrir mína parta að ég hef marglýst því að ég hafi talið mjög vafasamt að setja krónuna á flot án nokkurra stýriaðgerða eða aðhalds. Ég hef talið það mjög vafasama aðgerð að standa þannig að málum og hef lýst vantrú á því að gera slíkt og láta reyna á hvort okkur takist að ná einhverjum styrkleika í krónuna eftir þeirri aðferð. Ég hygg nú að það mál sem hér er lagt fram muni verða stutt af okkur í Frjálslynda flokknum. Auðvitað á eftir að fjalla um þetta í nefnd og fara yfir málin. En hér er verið að leggja upp með að setja á stýriaðgerðir og höft til þess að koma stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Ég er alveg sannfærður um að það sé markmið okkar allra hér á Alþingi að vinna að því eins og hugsanlegt er.

Hér er varað við því að það geti hugsanlega verið mikið fjármagnsflæði úr landi og þar af leiðandi gæti orðið veruleg viðbótarlækkun á gengi krónunnar. Ég tek undir þær áhyggjur. Þar af leiðandi, við fyrstu yfirferð á þessu máli og snögga yfirferð, sýnist mér að málið sé þannig vaxið að það sé frekar í átt að því sem við höfum verið að vara við í Frjálslynda flokknum að þyrfti jafnvel að gera til þess að ná tökum á gengi krónunnar og koma hér á til framtíðar eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum.

Sá tími sem þetta frumvarp nær til er til 30. nóvember 2010 og innan þess ramma er sem sagt fylgt áætlun sem lögð verður þá fram af Seðlabankanum og leitað eftir samþykki viðskiptaráðherra og ríkisstjórnar til þess að standa að málinu.

Ég tek það fram að eftir skoðun í nefnd kunna að koma fram einhverjar athugasemdir af okkar hálfu um málið en efnislega um það að reyna að hafa stjórn á því hvernig gjaldeyrismarkaður þróast hér á landi og hvernig við náum að festa stöðu eða gengi krónunnar þá held ég að það sé markmið sem rétt sé að styðja og horfa sérstaklega til þess að það er í samræmi við okkar skoðanir að þeim markmiðum hefði illa verið náð með því að taka eingöngu áhættu af því að stýra krónunni með því að hafa hana á floti og hafa engar aðrar aðgerðir.