136. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[01:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þessa þingsályktunartillögu en ég var á mælendaskrá þegar fundi var frestað um klukkan sjö og vildi aðeins gera stuttlega grein fyrir sjónarmiðum mínum.

Við fjöllum hér um tillögu til þingsályktunar um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessu þingmáli hefur verið lýst í þá veru að þetta sé opinn tékki. Þingsályktunartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.“

Í fylgiskjali með tillögunni eru þessi umsömdu viðmið tilgreind í þremur töluliðum og eins og rakið hefur verið við umræðuna eru þau harla óljós. Við vitum ekki hverjar þessar skuldbindingar eru og við vitum í reynd ekki á hvaða forsendum gengið er til þessara samninga.

Ég vil gera orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem hefur meðal annarra tjáð sig um þessa þingsályktunartillögu, að mínum. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá formanni efnahags- og skattanefndar Alþingis, hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem hefur í ítarlegu máli gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem hann hefur. Ég er sammála honum um að Íslendingar hefðu átt að láta reyna á réttarstöðu sína. Ég held að enginn deili um það að við eigum að standa við lögboðnar og þjóðréttarlegar skuldbindingar sem á okkur hvíla, spurningin er hins vegar sú hverjar þær eru og hvort láta hefði átt á þær reyna fyrir dómstóli þess vegna eða án þess að hafa þumalskrúfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fingrum.

Ég ætla ekki að hafa orð um þetta frekar, það er verið að vísa þessu máli til nefndar. Það mun fá umfjöllun í þingnefnd en ég vildi fyrst og fremst, hæstv. forseti, gera grein fyrir þessum fyrirvörum og þessari afstöðu til þingmálsins.