136. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[01:24]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt er að færi gefist á að skoða málið í utanríkismálanefnd og fara yfir einstaka þætti þess en mig langar að spyrjast fyrir um eitt atriði sem kom ekki fram í svörum hæstv. ráðherra og varðar lagalega hlið málsins. Hún hefur verið dregin upp á þann veg að til þess að láta reyna á málið fyrir dómstólum yrðu ríkin sem eru aðilar að deilunni að vera sammála um hvert ætti að skjóta málinu og rétt má vera að þjóðréttarsamningar gildi ef um milliríkjadeilu er að ræða. Í þessu tilviki sýnist mér um vera að ræða deilu um túlkun á lögum sem gilda á Íslandi og þá yrðu þeir sem greindi á, sem væntanlega eru innstæðueigendur í Bretlandi, að höfða mál fyrir íslenskum dómstólum og lúta lögsögu þeirra í málinu. Þannig skil ég lögfræðina í málinu, að uppsetningin, að um sé að ræða deilu tveggja ríkja, geti út af fyrir sig verið rétt en ég hygg að hin sé það líka. Ef ríkin ná ekki samkomulagi eða vilja það ekki þá stendur þessi leið eftir og íslenska ríkisstjórnin hlaut að íhuga, hvort ekki væri rétt að láta málið vera í þeim farvegi. Mig langar að fá skýringar á því hvers vegna ekki var látið á það reyna að reka málið fyrir íslenskum dómstólum.