136. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[01:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að nú sé að ljúka umræðu um þessa þingsályktunartillögu og málið sé á leiðinni til utanríkismálanefndar til frekari skoðunar. Hér er óskað heimildar til þess að leiða til lykta samningaviðræður á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða sem liggja til grundvallar samningaviðræðum sem fara síðan af stað í kjölfarið. Þær voru, eins og fram hefur komið í umræðunni hér í dag og reyndar áður, grundvöllur fyrir því að greiða fyrir afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er mjög áberandi hér í umræðunni að þátttakendur í henni telja sig sjá það fyrir eftir á að hægt hefði verið að fara aðrar og skynsamlegri leiðir sem hefðu verið líklegri til að valda íslenskum skattgreiðendum minni byrðum en sú leið sem málið hefur ratað í. Það er vísað til að mynda í lögfræðileg álit í því samhengi.

Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. Ef menn ætla að fara að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir til að tapa því máli ef á það mundi reyna. Þeir sem tala fyrir því að þá leið hefði átt að velja eru auðvitað tilbúnir til að gera það eftir á vegna þess að þeir geta gefið sér það í umræðunni að við hefðum sigrað þá lagaþrætu. Það er fínt að gera það í dag vegna þess að það liggur fyrir að sú leið verður ekki farin, en eru þeir hinir sömu þá tilbúnir til að fallast á að við mundum taka herkostnaðinn af þeirri ákvörðun ef niðurstaðan yrði okkur í óhag? Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.

Þess utan er líka afar líklegt, eins og m.a. hefur komið fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, að á meðan málið væri í slíkum farvegi hefðum við ekki fengið fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það liggur fyrir, og auk þess eru verulegar líkur á því að Bretarnir hefðu ekki dregið úr aðgerðum sínum á grundvelli hryðjuverkalaganna eins og þeir hafa reyndar þegar gert þó að ekki hafi þeir látið af öllum aðgerðum sínum á grundvelli laganna, þ.e. enn þá eru eignir Landsbankans kyrrsettar í Bretlandi. Þar til viðbótar má leiða líkum að því að á vettvangi samstarfsins um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið látið reyna á það hvort hægt hefði verið að hindra eða stöðva eða þvælast fyrir með einhverjum hætti frjálsum viðskiptum okkar inn á svæðið á grundvelli öryggishagsmuna. Allt eru þetta atriði sem þarf að taka með í reikninginn þegar menn eru að gera upp á milli þeirra valkosta sem við stóðum frammi fyrir í þessu máli.

Enn þá hefur engu verið lokað og ég hef ekki heyrt í sjálfu sér í umræðunni í dag mikla gagnrýni á hin sameiginlegu viðmið vegna þess að þau eru tiltölulega opin, það er hægt að fella meira eða minna allt það sem nefnt er hér í umræðunni í dag undir orðalagið í þessum sameiginlegu viðmiðum, þ.e. að fullt tillit verði tekið til þeirra efnahagslegu erfiðleika sem eru hér á landi og jafnframt að okkur verði gert kleift að endurreisa hér fjármálakerfið. Hugmyndir sem fram koma í umræðunni í dag um að við þurfum að setja þak á mögulegar árlegar greiðslur okkar til endurgreiðslu á lánum sem taka þarf til að standa undir þessum skuldbindingum rúmast alveg innan þessa orðalags sem er að finna í sameiginlegu viðmiðunum. Hið sama gildir um það að vera með sérstaklega langan lánstíma eða reyna að koma inn samkomulagi í þessu sambandi um mögulega endurskoðun á kerfinu.

Það er auðvitað alveg augljóst, bæði af því sem kommissjónin hefur sagt nú þegar, þ.e. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins — þeir eru nú þegar komnir fram með tillögur um að breyta innstæðutryggingarkerfinu í Evrópusambandinu, hækka tryggingarnar verulega, taka úr sambandi það sem maður getur kannski kallað ákveðna sjálfsábyrgð og ná fram meiri einsleitni í kerfinu á öllu svæðinu. Einnig hefur komið fram mjög rík gagnrýni frá breska fjármálaráðherranum, Alistair Darling, þar sem hann gagnrýnir það að bresk stjórnvöld og þar af leiðandi breskir skattgreiðendur þurfi að sitja uppi með kostnaðinn af því að tryggja innstæður vegna dótturfélaga erlendra banka sem starfa með dótturfélög í Bretlandi. Það er mikil óánægja með þetta.

Við skulum hafa í huga í þessari umræðu að íslensku bankarnir störfuðu ekki eingöngu í gegnum útibú á erlendum vettvangi. Sumir íslensku bankanna sóttu innlán í gegnum dótturfélög. Hvað hefur gerst í tilfellum þessara dótturfélaga? Það hefur lent á innstæðutryggingarsjóðum í Sviss, í Bretlandi, í Þýskalandi og víðar þar sem íslensku bankarnir störfuðu, það hefur lent á ríkisstjórnunum í viðkomandi löndum að fjármagna innstæður tryggingarsjóðanna til að þeir gætu staðið undir endurgreiðslu lágmarkstryggingarinnar þar. Hún hefur ekkert alltaf verið 20.000 evrur, í sumum tilfellum miklu hærri upphæð. Þær ríkisstjórnir sem við höfum verið í viðræðum við hafa tekið á sig gríðarlega miklar skuldbindingar og örugglega í einhverjum tilvikum skuldsett sig til að geta risið undir endurgreiðslum út af innstæðum til dótturfélaga íslensku bankanna. Þetta held ég að menn þurfi að hafa í huga í þessari umræðu, vandanum er ekki að öllu leyti velt hingað heim vegna þessa kerfis.

Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli. Sannarlega hefur verið í mörg horn að líta, það hefur verið úr mjög vöndu að ráða, hagsmunum hefur verið þvælt saman. Auðvitað erum við ósátt við það og höfum kvartað undan því opinberlega, og það er að mínu áliti starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til minnkunar að lánsbeiðni okkar þar skyldi hálfpartinn hafa verið tekin í gíslingu vegna óskyldra mála. Það finnst mér til minnkunar fyrir sjóðinn og það sem hann stendur fyrir, og ekki síst á það við vegna þess ástands sem hér ríkti og það var til mikils tjóns fyrir okkur að málið skyldi dragast svo vikum skipti vegna þessa.

Ég held að það sé augljóst að í framtíðinni muni Evrópusambandið, ekki bara vegna þeirra tillagna sem nú þegar eru komnar fram heldur vegna þess augljósa galla sem er á innstæðutryggingarkerfinu, taka það til gagngerrar endurskoðunar. Þess vegna er skynsamlegt fyrir okkur að halda öllum fyrirvörum varðandi réttarstöðu okkar þegar til slíkrar endurskoðunar kemur í framtíðinni. Eina vitræna leiðin fyrir Evrópusambandið og þar með allt Evrópska efnahagssvæðið er að tengja innstæðutryggingarsjóðina saman vegna þess að þegar það hefur verið gert er fall þriggja til fjögurra banka, þó að þeir séu allir í sama landinu, ekkert vandamál fyrir kerfið í heild sinni. Þetta er 500 milljóna svæði sem getur vel greitt úr slíku en einstök ríki geta ekki risið undir hruni bankakerfisins.