136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[03:18]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta mál, um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, sem hér er komið til 2. umr. er um margt athyglisvert .

Ég vil víkja að þeim orðum framsögumanns nefndarinnar, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, um að þetta sé ein af kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og með því að undirgangast ekki þessar kröfur væri í raun allt samkomulagið eða aðkoma gjaldeyrissjóðsins í uppnámi. Ekki síst í ljósi þess að enn er til meðferðar á Alþingi tillaga til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þ.e. þeir skilmálar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett fyrir aðkomu sinni að stuðningi við fjármálakerfi Íslands. Sú tillaga er óafgreidd og verður ekki annað séð en hún sé nú þegar orðin sögulegt plagg því að farið er að vinna og afgreiða lagafrumvörp á grundvelli þess að sú tillaga sé samþykkt, sem sagt að Alþingi hafi staðfest þetta samkomulag sem er forsenda þess að hægt sé að leggja fram þessi lög.

Það var alveg ljóst í umræðunni í nefndinni að það er í raun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem setur reglurnar, skipar fyrir. Meira að segja var óskað eftir því þegar menn vissu ekki hvort fulltrúar Seðlabanka eða forsætisráðuneytið færu rétt með skilaboð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að fulltrúar hans kæmu sjálfir til að fá skilaboðin milliliðalaust og einn af aðilunum sem komu á fund nefndarinnar hringdi svo í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, í fulltrúa þar, til að vita hvort fulltrúar Seðlabanka og forsætisráðuneytis færu með rangt mál. (Gripið fram í.) Í fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Bandaríkjunum. Þetta segir meira en mörg orð um þann trúnað sem fulltrúar bæði þingsins og þeir gestir sem komu á fund nefndarinnar bera til stjórnvalda. Þá var það áréttað að þetta væri hluti af tilskipun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og undan þessu yrði ekki vikið.

Meðan ég sat þarna og heyrði þessa rökræðu fór ég að hugsa að þarna værum við bara að taka á móti tilskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og velti þá fyrir mér ýmsum sparnaðarleiðum. Það væri greinilega miklu fljótvirkara að upplýsingafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kæmi bara sjálfur beint á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir því sem af okkur væri krafist, bara milliliðalaust, og það hefði kannski gengið enn fljótar þannig. Þá velti ég því fyrir mér hvort ekki væri hægt að ná fram sparnaði. Getum við ekki bara sagt forsætisráðherranum upp og sparað svolítið? Þetta kemur allt hvort eð er næstu tvö árin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eins og greint var frá. Þetta er tveggja ára samningur sem var gerður. (Gripið fram í.) Og sama með fjármálaráðherrann, sama með viðskiptaráðherrann. (Gripið fram í: En stjórnarandstaðan, má ekki spara þar líka?) Það gæti farið svo, jú, því að við erum bara hér eins og … (Gripið fram í.) En þetta er því miður hin nakta staðreynd. Það var meira að segja talið nauðsynlegt að hringja út til New York til að vita hvort fulltrúar Seðlabankans færu með rétt mál.

Þetta er hina nakta staðreynd, enda kom það svo rækilega fram í nefndinni að ein af ástæðunum fyrir því frumvarpi sem við fjöllum hér um er sú að íslenskum stjórnvöldum er ekki treyst betur en svo að setja þarf þessi hörðu lög og takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum, íslenskum stjórnvöldum var ekki treyst betur.

Það var að vísu athyglisvert að fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands kom á óvart krafan um þessi gjaldeyrishöft en þeir höfðu áður verið miklir talsmenn fyrir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samt stendur þetta alveg klárt í hinni frægu 19. gr. sem áður hefur verið vitnað til hér varðandi vaxtahækkunina. Þar stendur einmitt, með leyfi forseta:

„Við erum reiðubúin að beita tímabundnum gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti.“

Þetta þurfti því ekki að koma á óvart. En það er athyglisvert, herra forseti, að þær aðgerðir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur látið koma hér til framkvæmda að sinni kröfu hafa komið öllum aðilum á óvart, fyrst stýrivaxtahækkunin í 18% sem aðilar sem fagnað höfðu aðkomu gjaldeyrissjóðsins töldu algjörlega óþarfa og jafnvel stórhættulega og svo nú þessi gjaldeyrishöft.

Ég vil minnast á það hér, herra forseti, hve lítill trúnaður er í allri meðferð á þessu máli. Því var dreift hér í kvöld og þrátt fyrir ágæt viðbrögð þeirra sem komu á fund viðskiptanefndar var fjarri því að þeir treystu sér til að fjalla efnislega um málið með svo stuttum fyrirvara. Málið er keyrt í gegn á miklum hraða án þess að hægt sé að fá um það viðhlítandi umsagnir eða mat á áhrifum þess. Það var mjög afdráttarlaus andstaða við frumvarpið frá Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands, og þeir vöruðu mjög við því. En að öðru leyti er umfjöllun um málið mjög takmörkuð og Alþingi í sjálfu sér ekki til sóma.

Ég vil þess vegna ítreka að þetta er hluti af skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ríkisstjórnin hefur valið að hafa sem leiðtoga lífs síns í efnahags- og fjármálum næstu missirin og við höfum heyrt þau afdráttarlausu skilyrði sjóðsins að þetta verði að samþykkja annars sé allt í uppnámi, þar af leiðandi líka aðkoma annarra ríkja að fjármögnun eða lánveitingum til íslenska ríkisins. Þess vegna er málið mjög alvarlegt. Þetta er hluti af þessum pakka ríkisstjórnarinnar og er á ábyrgð hennar og meiri hluta Alþingis ef að líkum lætur og þetta verði samþykkt hér. Ég lýsi yfir því að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs getum ekki stutt þetta mál, við höfum ekki átt aðild að undirbúningi þess, við höfum ekki haft tíma til að fara yfir það með eðlilegum hætti. Þetta byggir líka á þingsályktunartillögu sem er ekki afgreidd frá Alþingi og við vísum því allri ábyrgð á málinu á hendur ríkisstjórnarinnar.