136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[03:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur ekki tafið framgang þessa máls, án þess að ég ætli að hæla mér neitt af því. Það var ákvörðun sem tekin var í ljósi alvarleika málsins en ekki út frá því hvert efni þess var. Ef ætlun þingmannsins er að væna okkur um það er það alveg ástæðulaust en ég tók það reyndar ekki svo.

Hitt er það að deilt er um hversu árangursrík þessi aðferð er til að ná upp stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og hvort aðrar aðferðir gætu verið hentugri. Menn velta fyrir sér stöðu þess fjármagns sem erlendir aðilar eiga inni í íslenskum peningastofnunum og þingmaðurinn vísaði til að þeir gætu haft áhuga á að fara með það úr landi.

Það má velta því fyrir sér, eins og kom fram á nefndarfundinum, hvort ætti að leyfa þeim sem vildu að fara bara með þetta fjármagni strax eða mjög fljótlega, hvort það væri alveg eins gott að taka þann slag. Ég get ekki metið það efnislega. Ég kom ekki að vinnu frumvarpsins og þær upplýsingar sem komu fram á fundinum voru mjög á reiki. Mér heyrðist að flestir sem tóku til máls bæru væntingar til að þetta skilaði árangri. Á þeim forsendum er þetta mál í rauninni rekið, á væntingum um að þetta skili árangri. (Forseti hringir.) Auðvitað vona ég líka að ef Alþingi samþykkir þetta frumvarp skili það árangri. Að sjálfsögðu.