136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[04:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom víða við í ræðu sinni en af og til rötuðust honum sönn orð á munn. Sérstaklega hjó ég eftir því þegar hann lýsti því frumvarpi sem hér er til umræðu sem neyðarráðstöfun í erfiðri stöðu. Ég get eindregið tekið undir það sem hann sagði í þeim efnum, hér er auðvitað um að ræða neyðarráðstöfun í erfiðri stöðu.

Ég kem fyrst og fremst í andsvar vegna þess að hv. þingmaður vék örfáum orðum að mér og fleiri flokksfélögum mínum í Sjálfstæðisflokknum vegna þeirra hafta sem felast í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur góðan skilning á því að það eru ekkert auðveld skref, eða skemmtileg, fyrir okkur marga sem höfum barist fyrir og berjumst fyrir frjálsum viðskiptum sem meginreglu í samfélaginu að taka þátt í að afgreiða mál af þessu tagi. (Gripið fram í.) Það er ekkert skemmtiefni. En eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti á er um að ræða neyðarráðstöfun í erfiðri stöðu, við erum við fullkomlega afbrigðilegar aðstæður og höfum verið frá því í haust. Þær aðstæður knýja okkur til þess að (Gripið fram í.) fara fram hér með ýmis mál sem við hefðum ekki ímyndað okkur fyrir örfáum mánuðum að við kæmum nálægt. Svona er staðan. Við öxlum þessa ábyrgð, við tökum ábyrgð á þessu, við tökum þátt í að afgreiða þau mál sem við teljum nauðsynleg í þeirri neyðarstöðu sem við erum í.

Ég hafði lengi vel væntingar um að Framsóknarflokkurinn hefði ábyrgðartilfinningu til að gera það líka, en óvæntur umsnúningur framsóknarmanna hér í kvöld gefur ekki tilefni til þess að það megi treysta á þá í framtíðinni í þeim (Forseti hringir.) efnum.