136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

samvinna við sveitarfélögin um atvinnuuppbyggingu.

[10:41]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mér heyrist miðað við svarið að ekki hafi verið haft beint samráð við sveitarfélögin um þennan lið en að þeim verði tilkynnt um þetta allt á morgun. Hvernig sem það er vaxið vil ég endurtaka að ég geri mér vonir um að þessi liður geti orðið til gagns og lýsi ánægju með það að hæstv. samgönguráðherra lítur þannig á það líka.

Ég spyr í framhaldi af því sem fram kom áðan: Má búast við að þetta atriði, þessi liður, geti t.d. breytt afstöðu ríkisstjórnarinnar hvað varðar stórframkvæmdir í landinu? Víða eru uppi hugmyndir um slíkt en ríkisstjórnin hefur frekar unnið gegn þeim, hvort sem það er í áli, kísil eða öðru.

Í sambandi við þau netþjónabú sem hafa verið mikið í umræðunni og eru nú í uppnámi vegna næturlaganna sem sett voru í síðustu viku má spyrja hvort eitthvað nýtt sé að frétta af því.