136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

skipalyftan í Vestmannaeyjum.

[10:49]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um málefni skipalyftunnar í Vestmannaeyjum.

Hinn 17. október 2007 eyðilagðist ein mikilvægasta lífæð atvinnu í Vestmannaeyjum þegar skipalyftan eyðilagðist. Síðan hefur málið staðið í miklu þófi og í blaðinu Fréttum sem nýlega kom út er haft eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, undir fyrirsögninni: „Ráðherra svari“ að bærinn sé tilbúinn með fjármuni og áætlun en það standi á svörum frá hæstv. samgönguráðherra. Hann segir orðrétt í viðtalinu:

„Nú er svo komið að við verðum að fá svar af eða á frá samgönguráðherra. Við hjá bænum höfum tekið frá fé til að ráðast í þetta og værum klár á morgun ef samgönguráðherra stæði við aðkomu ríkisins.“

Í blaðinu er enn fremur viðtal við Stefán Jónsson, framkvæmdastjóra skipalyftunnar, þar sem hann segir hárrétt að ótækt sé að stærsta verstöð landsins sé án upptökumannvirkja. Hann segir einnig að málið hafi tafist vegna málskots til ESA sem afar auðvelt sé að leysa með því að veita fyrirgreiðsluna með fyrirvara um þá niðurstöðu, það sé ekki eðlilegt að stærsta verstöð landsins sé án upptökumannvirkja. Síðan segir hann orðrétt:

„Við erum með öfluga útgerð og við viljum þjónusta hana vel. Málið er komið í þá stöðu að það þarf að taka ákvörðun um hvort menn vilji fara í þetta eða ekki. Það er fyrst og fremst ákvörðun samgönguráðherra með stuðningi fjármálaráðherra.“

Þetta segir Stefán Jónsson, verkstjóri skipalyftunnar.

Ég spyr hæstv. ráðherra hverju hann svari Vestmannaeyingum í þessu brýna hagsmunamáli þeirra.