136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

svæðisstöðvar RÚV.

[11:07]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er Ríkisútvarpið orðið opinbert hlutafélag — ohf. — og því erfiðara fyrir Alþingi að eiga aðgang að stjórn félagsins eða hafa eitthvað með ákvarðanir þess að gera. En eftir sem áður trúi ég ekki öðru en að bæði hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála og aðrir sem í raun og veru bera hag allra landsmanna fyrir brjósti standi vörð um Ríkisútvarpið og svæðisskrifstofurnar. Í því árferði og þeim miklu erfiðleikum sem fram undan eru tel ég mjög mikilvægt að stöðvarnar og starfsemi þeirra verði frekar efld á allan hátt en að fara þá leið (Forseti hringir.) sem hér er boðuð og má alls ekki verða.