136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

tollalög.

193. mál
[11:17]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Þetta frumvarp gengur út á það að einn yfirmaður verði yfir öllum tollinum á Íslandi og allar tollstöðvar sameinaðar undir einn forstöðumann. Ég vara við því. Sérstaklega hef ég tollstjóraembættið í Keflavík í huga og tel að það verði mikil óhagræði að því ef embættið, sem nú er rekið undir lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli með löggæslumálum á Suðurnesjum, verður sameinað þessari stofnun. Ég hef í sjálfu sér ekkert meira um það að segja en ég tel að við eigum ekki að fara þessa leið og forðast að gera það með þessum hætti. Tollverðir á Keflavíkurflugvelli hafa náð miklum árangri í gegnum tíðina, komið í veg fyrir mikinn innflutning og annað í þeim dúr, og ég held það verði torveldara og óhagkvæmara ef farin verður sú leið sem fyrirhuguð er í þessu frumvarpi. Ég legg til að þetta verði ekki gert.