136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald.

185. mál
[11:19]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi sem kveður á um breytingar á annars vegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga og hins vegar lögum um gatnagerðargjald.

Frumvarpið er liður í því að bæta rekstrarumhverfi sveitarfélaganna við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar og er afrakstur af nánu samráði ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga á síðustu vikum og mánuðum.

Eins og hv. þingmenn þekkja hafa sveitarstjórnarmenn miklar áhyggjur af því hvernig þessi miklu umskipti í efnahagsmálum þjóðarinnar muni koma við búskap sveitarsjóðanna og fjárhagslegar forsendur á næsta ári.

Alveg frá því að ósköpin dundu yfir hef ég átt náið samstarf við forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í samræmi við yfirlýsingu sem við undirrituðum þann 10. október síðastliðinn höfum við átt nær vikulega fundi þar sem framvinda mála er rædd og reifuð. Þá hafa sveitarstjórnarmenn átt eftir atvikum samráðsfundi með öðrum ráðherrum.

Það mun harðna á dalnum hjá sveitarsjóðunum eins og öðrum, ljóst er að þau verða að draga verulega saman seglin á næsta ári eins og aðrir í þjóðfélaginu.

Við erum hins vegar sammála um það meginmarkmið að standa vörð um grunnþjónustuna og þar með velferð borgaranna. Ég fagna sérstaklega því frumkvæði, sem mörg sveitarfélög hafa tekið varðandi breytta forgangsröðun, að láta velferðarþættina ganga fyrir en fresta verkefnum sem hafa minni þýðingu á tímum sem þessum. Víða hafa hefðbundnar deilur meiri og minni hluta verið lagðar til hliðar og sveitarstjórnarmenn ákveðið að snúa bökum saman í þágu borgaranna. Það er til mikillar fyrirmyndar og ber að þakka sérstaklega fyrir.

Ég hef lagt til að þegar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið liggja fyrir og við höfum skýrari mynd af fjármálum ríkisins á næsta ári, verði efnt til samráðsfundar fulltrúa úr ráðuneytum heilbrigðis-, félags- og tryggingamála og menntamála, og helstu forustumanna sambandsins. Þar mun aðilum gefast tækifæri til að ræða breytta forgangsröðun ríkis og sveitarfélaga, um leið og lagt er mat á hvernig grunn- og velferðarþjónustan í landinu verður varin.

Hæstv. forseti. Á þeim samráðsfundum sem ég hef átt með fulltrúum sveitarfélaganna hafa verið ræddar mögulegar leiðir og aðgerðir af hálfu ríkisins til að létta undir með sveitarfélögunum og greiða úr óvissu um rekstrarlegar forsendur. Að mörgu hefur verið unnið í því sambandi.

Lánasjóður sveitarfélaganna hefur t.d. verið styrktur sem bakhjarl sveitarfélaganna og er nú unnið að því að skoða hvernig hægt er að efla hlutverk hans enn frekar. Bráðavandi sveitarfélaga felst meðal annars í skorti á lánsfé og mikilvægt er að lánasjóðurinn fylli það tómarúm sem myndaðist við fall bankanna. Ég mun áfram leggja því verkefni lið eftir því sem þörf verður á.

Reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur verið breytt tímabundið á þann veg að nefndin á ekki að hefja sjálfkrafa eftirlitsaðgerðir þó að henni berist fjárhagsáætlanir frá sveitarfélögum sem sýna halla á rekstri ársins 2009. Nefndinni ber að skoða slíkar áætlanir heildstætt og í ljósi þess tímabundna efnahagsástands sem nú varir. Engu að síður ber sveitarfélögum að gera grein fyrir hallarekstrinum til eftirlitsnefndar.

Náið samráð hefur verið um öflun samtímaupplýsinga um fjármál og rekstur sveitarfélaga sem Hagstofa Íslands hefur einnig tekið þátt í. Við hyggjumst efla slíka upplýsingaöflun enn frekar. Á grundvelli þessara upplýsinga sjáum við t.d. að mikil umskipti eru að verða á búskap sveitarfélaganna frá síðasta ári, þegar fá sveitarfélög voru rekin með halla, og fram á það næsta. Um þetta var fjallað á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna á dögunum.

Ég hef verulegar áhyggjur af þessu og samgönguráðuneytið mun, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, fylgjast náið með framvindu mála, bæði hvað varðar afkomu sveitarfélaganna í heild sinni og eins hvað einstök sveitarfélög varðar. Staða sveitarfélaganna til að standast álagið er misjöfn, ljóst er að sum sveitarfélög hafa gott svigrúm til að mæta efnahagsþrengingum, önnur síður.

Í þessum samtölum hafa sveitarstjórnarmenn lagt áherslu á að áfram verði veitt 1.400 millj. kr. aukaframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á næsta ári. Framlagið hefur haft mikla þýðingu fyrir mörg sveitarfélög, ekki síst þau sem staðið hafa höllum fæti og því skil ég vel þrýsting sveitarstjórnarmanna um að halda þessu framlagi á næsta ári. Ég hef lýst áhuga mínum á því að semja um framhald slíkra aukagreiðslna en við verðum hins vegar að vera raunsæ og taka ákvarðanir í ljósi heildarhagsmuna. Því hef ég sagt við sveitarstjórnarmenn að niðurstaða varðandi framlagið verði að bíða þess að við höfum betri upplýsingar um rekstur ríkisins á næsta ári. Við getum því ekki tekið afstöðu til þessarar tillögu fyrr en fjárlagafrumvarpið er komið til 2. umr.

Herra forseti. Frumvarp það sem ég nú mæli fyrir er enn fremur afrakstur af því nána samráði ríkis og sveitarfélaga sem ég var að lýsa. Því er ætlað að skapa betri rekstrarlegar forsendur fyrir sveitarfélög til að mæta hinum tímabundnu efnahagserfiðleikum sem ríkja en jafnframt er því ætlað að auðvelda sveitarfélögum að vinna með þeim íbúum sínum sem eiga í greiðsluerfiðleikum, m.a. þannig að sveitarfélög geti komið fram af meiri sveigjanleika við innheimtu.

Frumvarpið felur í sér breytingu á tvennum lögum er varða sveitarfélög eins og ég gat um í upphafi máls míns. Annars vegar er um að ræða breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og hins vegar breytingar á lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006.

Hvað tekjustofnalögin varðar er lagt til að þeim verði breytt á þann veg að lögveðsréttur fasteignaskatts vegna áranna 2009 og 2010 gildi í fjögur ár í stað tveggja. Megintilgangur breytingarinnar er að skapa aukið svigrúm fyrir sveitarfélög til að semja við fasteignaeigendur sem eiga í greiðsluerfiðleikum um skil á fasteignaskatti þar sem tímafrestur varðandi lögveðið er rýmkaður úr tveimur árum í fjögur. Í ljósi þess efnahagsástands sem nú ríkir verður að telja afar óheppilegt að sveitarfélög landsins gangi fram af hörku við innheimtu fasteignaskatts. Með því að lengja lögveðsréttinn í fjögur ár vegna áranna 2009 og 2010 munu sveitarfélögin síður eiga á hættu að lögveðsréttur vegna slíkrar kröfu glatist þótt samið sé um rúman greiðslufrest. Ákvæðið ætti því að virka hvetjandi á sveitarfélögin til að semja um vanskil fasteignaskatts sem lagður er á vegna áranna 2009 og 2010.

Slíkur samningur milli sveitarfélagsins og skuldarans hefur það jafnframt í för með sér að skuldarinn kemst hjá því að greiða þann kostnað sem ella hlytist af nauðungarsöluferlinu sem sveitarfélög þyrftu annars að ráðast í til að viðhalda lögveðsréttinum. Þar sem frumvarpinu er ætlað að mæta þeim tímabundnu erfiðleikum sem ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar er lagt til að breytingin taki einungis til fasteignaskatts vegna áranna 2009 og 2010, auk dráttarvaxta vegna þeirra gjalda.

Hvað lög um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, með síðari breytingum, áhrærir eru lagðar til þrjár breytingar.

Í fyrsta lagi er lagt til að frestur sveitarfélags til þess að endurgreiða gatnagerðargjald verði lengdur úr 30 dögum í 90 daga. Breytingin mundi gefa sveitarfélögum aukið svigrúm til að endurgreiða gatnagerðargjald þegar lóð er skilað. Við þær breyttu aðstæður sem nú ríkja á fjármagnsmarkaði hafa stórfelld skil á lóðum skapað mikinn fjármögnunarvanda hjá sveitarfélögunum og hefur 30 daga fresturinn þar af leiðandi reynst afar íþyngjandi. Með breytingunni fá sveitarfélög því rýmri tíma eða 90 daga til að endurgreiða gjaldið.

Í öðru lagi er lagt til að ákvæði sem fjallar um að endurgreiðslufjárhæð gatnagerðargjaldsins skuli verðbætt, falli niður. Ég leyfi mér, herra forseti, að taka undir gagnrýni sveitarfélaganna á þetta ákvæði. Það getur varla talist eðlilegt að lóð sem úthlutað var fyrir mörgum mánuðum, jafnvel árum, sé endurgreidd að fullu verðbætt þegar henni er skilað að ósk lóðarhafa. Það er sanngjarnt að hann taki að einhverju leyti ábyrgð á því að hafa óskað eftir lóð og samþykkt að taka við henni við úthlutun.

Í tengslum við þá tillögu er í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða þess efnis að verðtrygging endurgreiðslunnar, eins og hún er í 3. málslið 9. gr., skuli halda sér vegna lóða sem úthlutað var eða byggingarleyfis sem veitt var fyrir gildistöku frumvarps þessa. Byggist það fyrst og fremst á sjónarmiðum um afturvirkni laga og þeim réttmætu væntingum sem þeir aðilar hafa sem þegar hafa fengið úthlutað lóðum.

Ég vil undirstrika að ekki hægt að breyta þessum lögum þannig að þau taki á þeim skaða sem þegar er orðinn. Ef til vill hafa sum sveitarfélög farið of geyst í uppbyggingu nýrra hverfa og standa þar af leiðandi frammi fyrir miklum vanda vegna þess mikla fjölda lóða sem nú hefur verið skilað. Ég hef sagt við sveitarstjórnarmenn að ég sé til í skoða þetta lagaumhverfi heildstætt t.d. með það að markmiði að þetta regluumhverfi verði heildstæðara og gegnsærra.

Í þriðja lagi er lögð til sú breyting með frumvarpinu að núgildandi bráðabirgðaákvæði laganna um gatnagerðargjald breytist með þeim hætti að það gildi til ársloka 2012 í stað ársloka 2009 eins og nú er. Með því gefst þeim sveitarfélögum sem enn eiga eftir að ljúka gatnagerð á grundvelli eldri laga kostur á að laga framkvæmdahraða að efnahagsástandinu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpið verði sent hv. samgöngunefnd til athugunar.