136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

loftferðir.

196. mál
[11:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var eitt atriði sem ég hnaut um í máli hæstv. ráðherra. Hann gerir grein fyrir því varðandi 4. gr. frumvarpsins sem hann mælti hér fyrir að lagðar væru til breytingar á orðalagi núgildandi laga með vísan til stjórnskipulags fyrirvara vegna innleiðingar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar um skráningu og miðlun upplýsinga o.s.frv.

Það sem mér leikur forvitni á að vita er í hverju þessi stjórnskipulegi fyrirvari felst, hvort hann er í gildi og hvort það sé meiningin með lagafrumvarpi þessu eða lögum, ef þau verða samþykkt, að fallið sé frá hinum stjórnskipulega fyrirvara sem um er að ræða sem mér er ekki alveg ljós hver er nákvæmlega.

Venjan er jú sú að þegar um er að ræða reglugerðir þar sem stjórnskipulegum fyrirvara hefur verið beitt, að vikið sé frá honum eða fallið frá honum með þingsályktun sem kemur til umfjöllunar á Alþingi. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða stjórnskipulegi fyrirvari er hér á ferðinni og hvort ætlunin sé að falla frá honum, hvort það eigi að gerast með þessu frumvarpi en ekki með hinum hefðbundnu leiðum sem gilda um stjórnskipulegan fyrirvara.