136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[12:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ræddi um þetta mál við 1. umr. og vakti athygli á því að ég teldi mikilvægt að annars vegar væri sett þak á þá upphæð skatta sem hægt væri að endurgreiða einum einstaklingi eða í einu tilfelli og hins vegar væri brýnt að þak væri á þeim útgjöldum sem af frumvarpinu leiddu þannig að mikil útgjöld því tengd þyrftu ekki að bitna á velferðarþjónustunni eða nauðsynlegri þjónustu ríkisins að öðru leyti.

Samkvæmt upplýsingum mínum sá nefndin ekki fleti á þessu í umfjöllun sinni fyrir 2. umr. en vilji væri í nefndinni til að skoða málið frekar milli 2. og 3. umr. Ég tel mikilvægt að það verði gert til að reyna að finna leiðir til þess að tryggja að þessir annmarkar verði ekki á málinu og jafnframt að hv. fjárlaganefnd fái málið til umsagnar því að hún glímir við það erfiða verkefni núna að halda fjárlögum ársins 2009 innan þeirra marka sem nauðsynlegt er við þær aðstæður sem við búum við núna í efnahagsmálum.