136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður sem síðast var í pontu vildi setja þak á þetta. Nú er það svo að bílalánum var haldið mjög að fólki og því var lánað mjög hátt hlutfall, jafnvel 90%. Margir féllu því miður fyrir því og keyptu dýra bíla, jeppa jafnvel á 5 eða 6 millj. kr. Og ég hef heyrt af því að þau lán hafi tvöfaldast, þannig að maður sem keypti bíl fyrir 5 millj. kr. — ekkert ofsalega ríkur í sjálfu sér — skuldar núna 10 millj. og ræður ekkert við greiðslu af því. Það er því dálítið varasamt að setja þak nema maður segi við manninn að hann hafi ekki átt að vera svona vitlaus að gera þetta, það er kannski hægt að segja það.

En ég vil benda á, eins og ég benti á við 1. umr., að við látum ekki fólk sem reykir alla ævi og veit að það getur fengið krabbamein af því gjalda þess þegar það eru komið með krabbameinið. Fólkið er skorið upp á kostnað ríkisins, að sjálfsögðu. Við þurfum að líta á neyðina eins og hún kemur fyrir en ekki af hverju hún myndaðist. Ef fólk er í miklum vandræðum af því að það keypti bíl á þessum kjörum og vegna þess hve gengið hefur hækkað gífurlega mikið þurfum við að koma til aðstoðar. Ef við setjum þak á þetta mundum við takmarka möguleika þeirra sem keyptu einmitt dýra bíla með miklum lánum.

Varðandi bílaleigurnar og umboðin gætir ákveðins misskilnings því að þau fyrirtæki eru væntanlega með virðisaukaskattsnúmer og fá virðisaukaskattinn endurgreiddan að miklu leyti og bílaumboðin eru yfirleitt ekki búin að borga skatt af bílum sem koma inn þannig að þau flytja þá bara viðstöðulaust aftur til baka.

Það kemur að sjálfsögðu gjaldeyrir til baka vegna þess að við erum nýbúin að setja lög á Alþingi sem hv. þingmanni ætti að vera kunnugt um. Við settum lög eina nóttina, um fjögurleytið held ég, um gjaldeyrishöft, af öllum útflutningi skal skila gjaldeyri, að viðlagðri refsingu ef svo er ekki gert. Þannig að þeir sem flytja út alla þessa bíla verða að skila gjaldeyrinum til baka.