136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[12:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að 5 millj. kr. bíll er ekki það sem kalla má venjulegan fjölskyldubíl, hann gæti verið það í einhverjum tilfellum, en það var svo sem ekki sú fjárhæð sem ég var að tala um áðan.

Ég vil hvetja til þess á þessu stigi að fylgst verði mjög náið með framgangi og framkvæmd þessara lagaákvæða og að rekjanlegt verði hvar sá stuðningur við heimilin í landinu sem hér er verið að boða ber niður og hverjir njóta hans nákvæmlega. Ég mun fyrir mitt leyti gera allt sem í mínu valdi stendur til að fylgjast með því. Í stjórnarandstöðu geta menn gert það með því að bera fram fyrirspurnir og ýta eftir atvikum á breytingar á þeim ákvæðum sem hér liggja fyrir ef manni sýnist, sem ég óttast, að þetta sé ávísun á misskiptingu greiðslna úr ríkissjóði sem ég vil helst ekki sjá.